Innlent

Segist gríðarlega bjartsýn um Bakka

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra kvaðst á Alþingi í dag gríðarlega bjartsýn á að senn drægi til góðra tíðinda í atvinnumálum Þingeyinga. Undirbúa þyrfti samfélagið þar fyrir stórfellda atvinnuuppbyggingu.

Forstjóri Landsvirkjunar lýsti því yfir á Stöð 2 fyrir helgi að fyrirtækið ætti nú í alvöruviðræðum, eins og það var orðað, við Alcoa um álver á Bakka en tveir toppfundir milli ráðamanna fyrirtækjanna síðustu vikur, bæði í Reykjavík og New York, benda til þess að veruleg hreyfing sé á málinu.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra var spurð á Alþingi í dag um stöðu málsins og kvaðst hún gríðarlegaa bjartsýn um að senn drægi til góðra tíðinda. Katrín skýrði frá því að hún hefði átt góðan fund með sveitarstjórnarmönnum í Þingeyjarsýslum á föstudag.

"Það býður okkar mikið verk að undirbúa samfélagið fyrir stórfellda atvinnuuppbyggingu," sagði Katrín. Hún tók þó fram að Landsvirkjun ætti í viðræðum við fleiri aðila en Alcoa.

Hún sagði að væntanleg uppbygging skipti ekki aðeins máli fyrir atvinnulífið fyrir norðan heldur þjóðarhag allan.

"Nú er lokahnykkurinn í þessu máli. Nú stendur hann fyrir dyrum. Og við þurfum öll að leggjast á eitt til þess að svo megi verða, landi og þjóð til heilla," sagði Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×