Innlent

Hvarf Atla og Lilju hefur ekki skaðað ríkisstjórnina

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar telja að ríkisstjórnin hafi ekki skaðast við brotthvarf Lilju og Atla úr þingflokki VG. Össur Skarphéðinsson telur að þvert á móti að þetta hafi styrkt ríkisstjórnina.

Þrátt fyrir að tveir þingmenn í órólegu deild Vinstri grænna hafi yfirgefið þingflokkinn í gær er ríkisstjórnin eftir sem áður ósammála í mörgum veigamiklum málum. Þar á meðal í afstöðunni til Evrópusambandsins, í stóriðjumálum, í peningamálum og einnig hvað varðar breytingar á kvótakerfinu.

Ríkisstjórnin hefur nú nauman meirihluta á þingi eða þrjátíu og þrjá þingmenn gegn þrjátíu. Það er því óvíst hvort hún hafi bolmagn til að koma stórum málum í gegnum þingið.

Aðspurð segir að ríkisstjórnin muni ráða við stóru málin sem eru framundan. „Já, ég tel að við munum gera það, við komum í gegn fjárlögunum núna í desember, þrátt fyrir að hafa ekki alla með okkur þá í atkvæðagreiðslu. Þannig að það sýnir að þeir sem að baki þessari ríkisstjórn standa núna eru einharðir stuðningsmenn," segir Katrín Júlíusdóttir.

„Þessi ríkisstjórn hefur tekist á við mörg mjög krefjandi verkefni og komist í gegnum þau og ég óttast ekki að við komust ekki í gegnum það sem framundan er þrátt fyrir þetta. Við höfum sýnt það í verki að við erum seig þó það gangi ekki allt eins og við vildum," segir Róbert Marshall þingmaður Samfylkingarinnar.

Í sama streng tekur Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, sem segir að ákvörðun Atla og Lilju hafi ekki komið á óvart.

„Þetta var bara tímaspursmál, þannig að staðan er óbreytt. Sjálfur hef ég sagt að ríkisstjórnin og staða hennar hafi styrkst. Það stafar af því að það er bara gott að aflétta óvissu," segir Össur.

Þú treysti þér sem sagt til að vinna áfram með Vinstri grænum í þessari ríkisstjórn? „Já, og hugsanlega fleiri ríkisstjórnum," segir Össur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×