Innlent

Sýslumaðurinn féllst á lögbannið - DV þarf að skila trúnaðarupplýsingum

Boði Logason skrifar
Reynir Traustason, annar tveggja ritstjóra DV.
Reynir Traustason, annar tveggja ritstjóra DV.
Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur úrskurðað að DV sé óheimilt að fjalla um frekar um málefni fjárfestingafélagsins Horns, dótturfélags Landsbankans. Þá þarf blaðið að skila inn trúnaðarupplýsingum sem það hefur undir höndum til sýslumanns fyrir klukkan tólf á hádegi á morgun.

Reynir Traustason, ritstjóri DV, segir í samtali við Vísi að blaðinu sé skylt að lúta lögbanninu. „Þetta er einhver ljótasta aðför sem hefur verið gerð að fjölmiðli. Það er verið að krefjast um gögn sem fólki í landinu kemur við. Sýslumaðurinn í Reykjavík er að hjálpa til við að draga heimildarmenn fram í dagsljósið," segir hann.

Hermann M. Þórisson, framkvæmdastjóri Horns, krafðist þess að lögbann yrði sett á umfjöllun blaðsins um félagið en blaðið hefur undir höndum gögn um málefni félagsins. Hann kærði jafnframt blaðið til lögreglunnar fyrir stuld á trúnaðarupplýsingum.

Reynir sagði í samtali við Vísi í dag að honum hafi borist bréf frá Hermanni fyrir helgi þar sem krafist var að gögnunum yrði skilað og blaðið hætti umfjöllun sinni. „Við gátum náttúrulega ekki orðið við því," sagði Reynir í dag og fyrir vikið fór félagið fram á lögbann um umfjöllun blaðsins um félagið.

Samkvæmt fréttavef DV, segir að Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi úrskurðað að blaðinu sé óheimilt að fjalla frekar um málefni félagsins og er DV gert að skila gögnunum sem tengjast málinu til sýslumanns. Blaðið hefur frest til hádegis á morgun til að verða við þeim kröfum.

Jafnframt úrskurðaði sýslumaður að blaðinu er ekki skylt að eyða út fréttum af DV.is en blaðinu og vefnum er bannað er að vísa í þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×