Innlent

Varaþingmaður Atla tilbúin að taka sæti - krafist afsagnar Atla

Arndís Soffía Sigurðardóttir
Arndís Soffía Sigurðardóttir
Arndís Soffía Sigurðardóttur, varaþingmaður Atla Gíslasonar, sagði í viðtali við fréttastofuna í morgun að hún vildi að svo stöddu ekki taka afstöðu til máls Atla, þar sem ekki yrði fjallað um það í sínu svæðisfélagi fyrr en síðar í dag, en hún væri vissulega tilbúin til að taka þingsæti hans og vinna að stefnu Vinstri grænna í kjördæminu.

Kröfur um að Atli víki fyrir varmanni sínum á Alþingi, hrannast nú upp frá flokksdeildum Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.

Stjórn kjördæmisráðs Vinstri grænna í Suðurkjördæmi telur að Atla, sé ekki lengur sætt í umboði kjósenda Vinstri grænna á Suðurlandi, og svæðisfélögin á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum vilja að hann víki úr þingsæti fyrir varamanni sínum.

Málið verður svo tekið fyrir í svæðafélögum Mið-Suðurlands og Hornafjarðar í dag en Atli er eini þingmaður flokksins í kjördæminu.

Stjórn kjördæmisráðsins lýsir yfir vonbrigðum með að þingmaðurinn skuli ekki hafa rætt fyrirætlanir sínar við stofnanir og grasrót flokksins í kjördæminu og telur að um trúnaðarbrest sé að ræða.

Svæðisfélagið í Vestmannaeyjum skorar á Atla að segja af sér þingmennsku og Svæðisfélagið á Suðurnesjum hvetur hann til að stíga til hliðar og hleypa Arndísi Soffíu varaþingmanni að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×