Körfubolti

Eiríkur: Þurfum að sanna okkur á útivelli

Elvar Geir Magnússon í Breiðholti skrifar
Eiríkur Önundarson, fyrirliði ÍR.
Eiríkur Önundarson, fyrirliði ÍR.
„Það er orðið nokkuð síðan við unnum leik í úrslitakeppni og nokkuð síðan við unnum Keflavík. Þetta var mjög sætt," sagði Eiríkur Önundarson ÍR-ingur eftir að liðið vann 106-89 sigur á Keflvíkingum í kvöld. Það er því ljóst að oddaleik þarf í einvíginu,

„Ég held að við höfum sýnt það undanfarið að við erum mjög góðir á heimavelli og náð að leggja hvert toppliðið á fætur öðru. Það gengur enginn að sigri vísum gegn okkur á þessum velli. Við þurfum klárlega að sanna okkur á útivelli og höfum virkilega gott tækifæri til að gera það í þessum oddaleik," sagði Eiríkur en Breiðholtsliðið fékk góðan stuðning í Seljaskólanum í kvöld.

ÍR-ingar mættu gríðarlega ákveðnir til leiks og voru 31-13 yfir eftir fyrsta leikhluta, tölur sem fáir bjuggust við að sjá. „Ég veit ekki hvort þetta hafi verið eitthvað vanmat hjá þeim. Við erum lítið að hugsa út í hvað þeir eru að gera. Ef við einbeitum okkur að okkar leik og náum fram okkar besta þá erum við í fínum málum," sagði Eiríkur.

„Þetta byrjaði rosalega sveiflukennt og við komumst einhverjum 20 stigum yfir. Það veit samt hver einasti maður sem fylgist með íslenskum körfubolta að 20 stig á móti Keflavík eru eins og 6-8 stig gegn öðru liði. Þeir eru enga stund að ná því þegar þeir komast í gang. Við vissum það að við værum ekkert að fara að rúlla yfir þetta lið."

„Við þurfum að vinna þá aftur ef við ætlum okkur eitthvað lengra og við þurfum að vinna á útivelli til að taka titilinn. Það er ágætist tími að byrja á því í oddaleiknum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×