Innlent

Hreyfing: Pálmi baðst ekki afsökunar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
séra Pálmi Matthíasson, sóknarprestur í Bústaðarkirkju.
séra Pálmi Matthíasson, sóknarprestur í Bústaðarkirkju.
Séra Pálma Matthíassyni sóknarpresti var vikið úr líkamsræktarstöðinni Hreyfingu fyrir framkomu í garð konu sem var íþróttakennari hjá stöðinni.

Fjallað er um málið í DV í dag, en stjórnendur Hreyfingar tóku þá ákvörðun að biðja Pálma, sem hefur verið viðskiptavinur stöðvarinnar í 23 ár, um að láta af íþróttaiðkun hjá stöðinni.

Málið varðar atvik sem átti sér stað í svokölluðum „Body Combat" æfingatíma sem byggir m.á spörkum og kýlingum án snertingar, en konan kenndi Body Combat hjá stöðinni. Í yfirlýsingu sem Pálmi sendi frá sér á föstudag segir hann að í hléi milli laga hafi hann verið að huga að þessari þjálfun og sparkað af gáleysi út í loftið. Þar segir: „Ég gætti ekki nægilega að umhverfi mínu, og hitti með ristinni á utan- og ofanverðan afturhluta kennarans. Þetta var algjört óviljaverk og enginn ásetningur til staðar. Að sjálfsögðu bað ég hlutaðeigandi strax velvirðingar og afsökunar og tíminn hélt áfram. Enginn frá Hreyfingu hefur rætt við mig vegna þessa og þykir mér það heldur nöturlegt eftir að hafa verið samfellt í 23 ár í viðskiptum hjá þessari líkamsræktarstöð og forverum hennar."



Segja yfirlýsingar Pálma í ósamræmi við skýringar vitna

Grímur Sæmundsen er stjórnarformaður Hreyfingar og Ágústa Johnson er framkvæmdastjóri. Í yfirlýsingu sem stjórnendur Hreyfingar sendu frá sér segir m.a: „Ekki var verið að iðka sparkæfingar í hóptímanum þegar viðskiptavinurinn sparkaði í rass starfsmannsins sem var að leiðbeina í tímanum."

„Viðskiptavinurinn sem um ræðir baðst ekki afsökunar á framferði sínu."

„Yfirlýsing viðskiptavinarins í fjölmiðlum er ekki í nokkru samræmi við upplifun viðkomandi starfsmanns, vitna eða annarra starfsmanna heilsuræktarstöðvarinnar."

„Ákvörðun um lokun aðgangskortsins var tekin að vel athuguðu máli. Til grundvallar ákvörðuninni lá ennfremur fyrri samskiptasaga viðskiptavinarins gagnvart þessum starfsmanni heilsuræktarstöðvarinnar."

Séra Pálmi sagði við fréttastofu í dag að hann vildi ekki tjá sig um málið umfram það sem kom fram í yfirlýsingunni. Hann vildi ekki svara því hvers vegna skýringar stjórnenda Hreyfingar væri í svona miklu ósamræmi við hans eigin upplifun af atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×