Innlent

Þarf að sannfæra Jóhönnu um að Vinstri grænir séu enn stjórntækir

Höskuldur Kári Schram skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra
Ákvörðun Lilju og Atla breytir litlu um þingmeirihluta ríkisstjórnarinnar að mati þingmanna Samfylkingarinnar sem segja að atburðarásin í dag hafi ekki komið á óvart.

Ákvörðun Lilju og Atla kom þingmönnum Samfylkingarinnar sem fréttastofa talaði við í dag ekki á óvart.

Samfylkingarmenn hafa litið svo á að Lilja og Atli - og reyndar Ásmundur Einar Daðason líka - hafi sagt sig úr stjórnarliðinu þegar þau sátu hjá í atkvæðagreiðslu um fjárlögin í desember á síðasta ári. Þessi ákvörðun í dag komi því ekki á óvart.

Á pappírnum er ríkisstjórnin nú með þrjátíu og þrjá þingmenn, tuttugu samfylkingarmenn og þrettán vinstri græna.

En meirihlutinn er þó ansi fallvaltur.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, er í fæðingarorlofi en hún hefur gagnrýnt stefnu ríkisstjórnarinnar í Magma málinu og tilheyrir órólegu deildinni innan þingflokksins.

Jón Bjarnaon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er yfirlýstur andstæðingur aðildarviðræðna við Evrópusambandið og hefur kallað eftir því að viðræðum verði slitið.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði af sér sem ráðherra árið 2009 útaf Icesave málinu en hann hefur einnig verið afar ósáttur með samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Þessir þrír þingmenn ásamt Ásmundi Einari Daðasyni valda því að ríkisstjórnin hefur afar hverfulan meirihluta í veigamiklum málum.

Það kemur í hlut Steingríms J. Sigfússonar að sannfæra Jóhönnu um að Vinstri grænir séu enn stjórntækir og að ríkisstjórnin hafi getu til að takast á við þau erfiðu verkefni sem eru framundan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×