Innlent

Kjarasamningar gætu kostað ríkissjóð yfir 20 milljarða

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra segir kröfur aðila vinnumarkaðarins á stjórnvöld í tengslum við gerð kjarasamninga, kosta ríkissjóð um tuttugu milljarða króna. Ef stjórnvöld verði við þeim öllum gangi mun hægar að vinna á miklum halla á rekstri ríkissjóðs.

Ríkisstjórnin fundaði vestur á Ísafirði í dag og kynnti meðal annars fyrir sveitarstjórnarmönnum ýmsar aðgerðir upp á rúma fimm milljaða króna til eflingar byggðar og atvinnulífs á svæðinu. Jóhanna Sigurðardóttir sagði að loknum ríkisstjórnarfundi að stjórnvöld væru nú að meta breytingartillögur aðila vinnumarkaðarins við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því fyrir helgi, um aðkomu stjórnvalda að gerð kjarasamninga.

„Það er alveg ljóst að margar af þessum tillögum eru mjög kostnaðarsamar fyrir ríkissjóð og af því hefur maður verulegar áhyggjur," segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Miðað við þær tillögur sem hún hafi séð frá frá aðilum vinnumarkaðarins varðandi launaliðinn, muni þær hækkanir hafa veruleg áhrif á upphæðir allra tryggingabóta og svo launakostnað ríkisins.

„Þetta skiptir einhverjum tugum milljarða sem við erum að tala um," segir Jóhanna. Kostnaður ríkissjóðs geti orðið yfir 20 milljarðar króna. Það geti sett verulegt strik í reikninginn varðandi þau markmið stjórnvalda að ná halla á ríkissjóði mjög hratt niður á næstu tveimur árum. „Ef við verðum við öllum þeirra óskum," segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×