Innlent

Skólamálin rædd í borgarstjórn - 90 prósent umsagna neikvæðar

Jón Gnarr borgarstjóri tekur við undirskriftum þar sem tillögunum er mótmælt.
Jón Gnarr borgarstjóri tekur við undirskriftum þar sem tillögunum er mótmælt.
Á borgarstjórnarfundi sem hófst klukkan tvö í dag eru tillögur meirihlutans um sameiningar í skólum borgarinnar til umræðu. Fjölmargar umsagnir hafa borist um málið og í tilkynningu frá sjálfstæðismönnum segir að um 90 prósent þeirra séu neikvæðar.

„Meirihlutinn hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir skort á samráði, ófagleg vinnubrögð og lítinn fjárhagslegan ávinning af þessum tillögum og má með sanni segja að umsagnirnar styðji það,“ segir í tilkynningunni. „Það er sláandi að lesa umsagnir foreldrafélaga leikskólanna og skólaráða grunnskólanna sem flestar hefjast á því að tillögunum er hafnað eða þeim er mótmælt. 90% skólaráða grunnskóla (16 af 18) skila inn mjög neikvæðum umsögnum og 94% foreldrafélaga í leikskólunum (30 af 32).“

Sjálfstæðismenn benda á að í umsögn Kennarasambands Íslands sé beinlínis hvatt til þess að tillögurnar verði dregnar til baka og er það einnig algengt sjónarmið í umsögnum sem bárust frá foreldrafélögum og skólaráðum. „Þá má ekki gleyma því að um 12.000 borgarbúar hafa mótmælt tillögunum á vefsíðunni www.born.is sem sett var upp af áhyggjufullum foreldrum í borginni,“ segir ennfremur.

Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn segir þessa afdráttarlausu niðurstöðu úr umsagnarferlinu ekki koma á óvart og segir hún vinnubrögðin í málinu hafa verið ólýðræðisleg og óviðunandi. „Sú staðreynd endurspeglast í þeim fjölmörgu umsögnum sem nú liggja fyrir.  Þar kemur fram mjög afdráttarlaus andstaða foreldra og starfsfólks við þeim hugmyndum sem meirihlutinn hefur kynnt, en þar kemur líka fram mjög afdráttarlaus vilji til að vinna með borgaryfirvöldum að lausn málsins.  Nú á borgarstjórn að nýta sér þennan sameiginlega vilja, hefja allt þetta ferli uppá nýtt, vinna verkið vel og fá fólkið í borginni í lið með sér til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu án þess að hún bitni á skólunum eða börnunum okkar."

Þá segja sjálfstæðismenn að varðandi sameiningar frístundaheimila og grunnskóla séu allir fagaðilar á einu máli um það að sameiningin muni hafa neikvæð áhrif á faglegt starf í frístundaheimilunum. „Hverfaráð og skólaráð eru ekki eins afgerandi en setja þó flest fyrirvara við sameininguna. Mjög óljóst er í hvaða ferli tillögurnar um samrekstur og sameiningar er og hefur verið erfitt að fá skýr svör frá meirihlutanum hvað það varðar.  Þó virðist það alls ekki á döfinni að falla frá þessum áformum þrátt fyrir mikla andstöðu við tillögurnar frá foreldrum og fagaðilum.  Það virðist vera svo að meirihlutinn í Reykjavík telji sig vita betur en borgarbúar og ætli að keyra í gegn breytingar sem geta haft varanleg áhrif á menntamál í Reykjavík án framtíðarsýnar, samráðs og sáttar.“

Allar umsagnirnar má sjá á vefsíðu Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×