Innlent

Slitnaði ekki upp úr kjaraviðræðunum - haldið áfram á morgun

Boði Logason skrifar
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, segir að kjaraviðræðurnar haldi áfram á morgun.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, segir að kjaraviðræðurnar haldi áfram á morgun.
„Nei, það gerðist ekki. Við ákváðum að halda þræðinum en þetta er allt saman mjög viðkvæmt," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins.

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að bakslag væri komið í kjaraviðræðurnar, á milil SA og ASÍ, og það gæti hreinlega slitnað upp úr viðræðunum á fundi sem haldinn var um klukkan sex í dag.

Vilhjálmur segir að það hafi ekki gerst, menn hafi ákveðið að halda þræðinum og hittast á morgun. Hann segir að á fundinum hafi verið reynt að horfa meira á sameiginlega á ákveðna hluti varðandi launamálin. „Það stendur og fellur með ríkisstjórninni, til dæmis að tryggingagjöld lækki. Síðan eru mörg meginatriði sem varða fjárfestingar ekki útkljáð ennþá. Og einnig þessi almennu skilyrði, gjaldeyrishöftin, skattamálin, fjármagnsmarkaðurinn og það allt saman. Við erum líka að spá í sjávarútvegsmálin og stóru fjárfestingarnar," segir Vilhjálmur.

Fulltrúar Samtaka Atvinnulífsins og ASÍ hafa kastað hugmyndum á milli sín í dag, og síðustu daga, til að reyna að ná lendingu. Það er krafa Alþýðusambandsins um 200 þúsund króna lágmarkslaun sem þýðir allt að  21% hækkun lægstu launa og krafan um allt að 11 til 12 prósenta almenna hækkun launa sem situr í Samtökum Atvinnulífsins.

Og kjaraviðræðurnar halda áfram á morgun. „Við höldum áfram á morgun, við þurfum að vinna ákveðna heimavinnu. Vinna í skjalgerðinni og hnýta eins mikið af lausum endum og við mögulega getum," segir Vilhjálmur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×