Innlent

Konur sópa að sér bókmenntaverðlaunum

Karen D. Kjartansdóttir skrifar
Konur eru handhafar allra helstu bókmenntaverðlauna landsins fyrir fagurbókmenntir auk bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Ragnheiður Gestsdóttir var sú sjötta í röð skrifandi kvenna til að hljóta verðlaun og fagnar því hvað konur eru sterkar á ritvellinum.

Sjálf íslensku bókmenntaverðlaunin féllu síðast í skaut Gerðar Kristnýar.

Þá má nefna að handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör er myndlistamaðurinn og ljóðskáldið Steinunn Helgadóttir,

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fékk finnski rithöfundurinn Sofi Oksanen sem vakti þó nokkra athygli þegar hún kom hingað til lands fyrir skömmu.

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar hlaut Þórdís Gísladóttir síðast.

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, sem afhent voru fyrir skömmu fékk Kristín Loftsdóttir.

Anna S. Björnsdóttir fékk heiðursverðlaunin STEININN sem Ritlistarhópur Kópavogs veitti henni með styrk frá Lista- og menningarráði Kópavogs.

Í gær, á alþjóðlegum degi barnabókarinnar, fékk Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur Sögusteinnin, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi.

Hún segir verðlaunin hafa mikla þýðingu fyrir sig.

„Þau hafa gífurlega mikla þýðingu fyrir mig því að næst á eftir því að fá falleg viðbrögð og góð frá lesendunum sjálfum að þá er það þetta bókafólk. Fólk sem hefur yndi af bókunum...."

Þá segir hún einkar gleðilegt að sjá hve hlutur kvenna er stór þegar kemur að verðlaunaafhendingum að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×