Innlent

Karlmönnum með kvíða komið til bjargar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þessi vika er tileinkuð karlmönnum hjá Hjálparsíma Rauða krossins.
Þessi vika er tileinkuð karlmönnum hjá Hjálparsíma Rauða krossins.
Hjálparsími Rauða krossins 1717 stendur fyrir átaki þessa vikuna undir yfirskriftinni „Geta pabbar ekki grátið?“ Rauði krossinn segir að þetta sé vegna þess að margir finni fyrir fjárhagsáhyggjum um þessar mundir sem valdi miklum kvíða., streitu og jafnvel þunglyndi. Ekki megi gera lítið úr slíkum tilfinningum.

Karen Theódórsdóttir, verkefnisstjóri Hjálparsímans, segir að átaksvikur sem þessar séu haldnar að öllu jöfnu tvisvar sinnum á ári, að hausti og um vor. „Við höfum verið að taka ýmislegt fyrir. Það er bara svona eftir því hvað er í gangi hverju sinni. Annað hvort er verið að fara inn í ákveðinn markaðshóp, við vorum til dæmis með unglingana fyrir áramót, eða einhvern ákveðinn málaflokk sem við förum aðeins dýpra í. Bæði til að ná að markaðssetja símann fyrir einhvern ákveðinn hóp og líka til að þjálfa sjálfboðaliðana okkar í einhverjum ákveðnum málaflokki.

Hjálparsímanum bárust um 24 þúsund símtöl allt árið í fyrra og í ár hafa að meðaltali borist um sjötíu símtöl á dag. Karen segir að átaksvikur, eins og sú sem er nýhafin, skili sér í auknum fjölda símtala.

Hjálparsíminn vann að undirbúningi átaksvikunnar í samstarfi við Umboðsmann skuldara sem veitti upplýsingar um öll þau úrræði sem standa einstaklingum og heimilum í boði vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×