Handbolti

Íris Björk: Sýndum frábæran karakter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íris Björk Símonardóttir.
Íris Björk Símonardóttir. Mynd/Daníel
Íris Björk Símonardóttir markvörður kvennaliðs Fram í handknattleik átti glimrandi leik í dag og varði 17 skot í sigurleik gegn Stjörnunni 21-22. Fram tryggði sér þar með sæti í lokaúrslitum N1-deildar kvenna eftir 2-0 sigur á Stjörnunni í undanúrslitum.

„Það voru kannski ekki mikil gæði í þessum leik en hann var spennandi undir lokin - mjög góður sigur hjá okkur. Það var gaman að vinna í dag og klára þetta í tveimur leikjum þrátt fyrir að hafa ekki átt okkar besta leik,“ sagði Íris Björk.  

Fyrri leikur liðanna á fimmtudaginn var einkenndist af lélegum varnarleik en góðum sóknarleik en í dag var allt annað í gangi.

„Við eiginlega skiptum þessu alveg í tvennt, í dag var varnarleikurinn mjög góður en sóknarleikurinn slakur. Við vorum óákveðnar og áttu fá svör við góðum varnarleik Stjörnunnar. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða vel fyrir úrslitarimmuna næstkomandi föstudag.“

Fram var tveimur mörkum undir þegar skammt var eftir af leiknum en skoruðu þá þrjú mörk í röð og tryggðu sér sigurinn á lokamínútunni.

„Við fórum loksins að spila sem lið í lokin sem er okkar styrkur og Stella (Sigurðardóttir) steig upp eftir að hafa verið í smá lægð í leiknum. Við sýndum bara frábæran karakter og kláruðum þetta,“ sagði Íris Björk kampakát í samtali við Vísi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×