Innlent

Konurnar fá störf að nýju

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Oddný Sturludóttir.
Oddný Sturludóttir.
„90% starfsmanna leikskóla eru konur. Það gefur að skilja að þegar kemur til breytinga í leikskólum þá hreyfir það við störfum kvenstjórnenda,“ segir Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, gagnrýndi í dag að öllum þeim stjórnendum, sem sagt verður upp vegna hagræðinga í skólakerfinu sem samþykktar voru á borgarstjórnarfundi í dag, væru konur.

„Tillögurnar, að teknu tilliti til umsagna menntaráðs, gera ráð fyrir fækkun í yfirstjórn skóla. Gengið er út frá því að skólastjórum og aðstoðarskólastjórum verði sagt upp, þó svo að stór hluti aðstoðarskólastjóra leikskóla séu í lágu hlutfalli stjórnunar vegna smæðar leikskólanna,“ segir Oddný og bendir á að þær séu um 10-40% hlutfall stjórnunar.

 Oddný ítrekar að á leikskólasviði verði 47 stjórnendum sagt upp, leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjórum. Við breytingarnar verði til 25 nýjar stöður stjórnenda og aðrar lausar stöður vegna annarra aðstæðna séu 7 talsins.

Alls þurfi því á næstu mánuðum að ráða 32 stjórnendur til leikskóla borgarinnar og þá séu 15 stjórnendur. Þar er um að ræða leikskólastjóra og aðstoðarleikskólarstjóra sem nú eru að störfum án stjórnunarstarfs, að sögn Oddnýjar.

„Vegna forgangsröðunar meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar í þágu nýrra leikskólaplássa fyrir stóran árgang leikskólabarna verða nýráðningar til leikskólanna á árinu 2011 að lágmarki 55. Þar af eru deildarstjórastöður um 10 og til viðbótar eru 10-15 deildarstjórastöður að losna síðar á árinu. Því verður hægt að bjóða öllum áfram störf hjá leikskólum borgarinnar eftir breytingarnar, leikskólastjórastöðu, aðstoðarleikskólastjórastöðu, deildarstjórastöðu eða sérkennslustjórastöðu,“ segir Oddný.




Tengdar fréttir

Konur fá að fjúka frá borginni

Alls verður 46 stjórnendum í skólakerfinu sagt upp hjá Reykjavíkurborg um næstu mánaðamót vegna breytinga á skólakerfinu sem borgarráð samþykkti í gær, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Leikskóla- og Menntasviði Reykjavíkurborgar. Allt eru þetta konur sem missa vinnuna, en einhverjar þeirra munu fá önnur störf hjá borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×