Innlent

Bjarni Ben: Kosningar munu tryggja traust á milli þings og þjóðar

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lagði á Alþingi í dag fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Í tillögunni er þess krafist að þing verði rofið 11.maí og boðað til kosninga. Forsætisráðherra fagnaði tillögunni og þakkaði Bjarna fyrir að leggja hana fram.

Í umræðum um munnlega skýrslu forsætisráðherra um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins var Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins harðorður í garð ríkisstjórnarinnar og sagði hana skorta traust þjóðarinnar.

„Það eru hagsmunir þjóðarinnar að það verði boðað til kosninga sem fyrst, það mun tryggja traust á milli þings og þjóðar við það mál sem hér er á dagskrá. En það mun ekki síður endurvekja traust á þessari mikilvægustu og valdamestu stofnun landsins þess vegna verðum við að ganga til kosninga. Frú forseti, ég mun leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina í dag," sagði Bjarni á Alþingi í dag.

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði að með vantrauststillögunni væri Bjarni að kalla eftir pólitískri upplausn í landinu á mjög erfiðum tímum. Hún fagnaði þó tillögunni að vissu leyti.

„Ég segi nú bara, virðulegur forseti, loksins, loksins mannar stjórnarandstaðan sig upp í það að leggja fram vantraust á ríkisstjórnina. [...] Ég vil bara enda á því að þakka formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir að ætla að flytja vantraust á ríkisstjórnina og þjappa þar með stjórnarliðinu saman, kærar þakkir Bjani Benediktsson," sagði Jóhanna í dag.

Óvíst er með stuðning Framsóknarmanna við vantrauststillöguna. Þeir eru samkvæmt heimildum fréttastofu óánægðir með að hafa ekki fengið að vera með í ráðum og telja að eðlilegast hefði verið að allur minnihlutinn sameinaðist um slíka tillögu.

Styðji Framsóknarmenn tillöguna er staðan sú að stjórnin nýtur stuðnings 34 þingmanna gegn 29 þingmönnum stjórnarandstöðu.

Þá er óvíst hvernig hin svokallaða órólega deild Vinstri Grænna mun greiða atkvæði, ráðherrarnir Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson sem og þingmennirnir Ásmundur Einar Daðason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Atli Gíslason, sem nýverið sagði sig úr þingflokki Vinstri Grænna, sagði í samtali við fréttastofu í dag að hans stuðningur væri ekki sjálfgefinn. Þá ætla þingmenn Hreyfingarinnar sér að bera tillöguna upp fyrir bakland sitt áður en þeir taka afstöðu til hennar.

Síðast var lögð fram vantrauststillaga á ríkisstjórn Geirs H. Haarde í kjölfar bankahrunsins 24. nóvember 2008, sú tillaga var felld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×