Innlent

Steingrímur: Glöggt er gests augað

„Ísland er ekki í neinum greiðsluvandræðum og verður ekki næstu árin," segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Hann gaf lítið fyrir orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem stuttu áður boðaði úr pontu Alþingis að hann myndi leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

Steingrímur benti á að sitjandi ríkisstjórn væri að vinna samkvæmt samningum sem síðasta ríkisstjórn átti hluta að, og þar með samningum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði sjálfur unnið að.

Steingrímur benti á að Lars Christiansen, forstöðumaður greiningardeildar Danske Banke, segir nú að hagvöxtur sé hafinn á Íslandi á ný og horfur til framtíðar ágætar. Christiansen spáði árið 2006 fyrir um hrun íslenska efnahagsundursins. „Vonandi hefur hann rétt fyrir sér aftur að þessu sinni," segir Steingrímur og vitnaði í orðatiltækið: „Glöggt er gests augað."

Að sögn Steingríms átti hann í gær samtöl við bæði fjármálaráðherra Svíþjóðar og fjármálaráðherra Noregs, og sagðist telja að Íslendingar mættu þar velvilja og skilningi. Hann sagðist viss um að niðurstaða Icesave-kosninganna myndi ekki vera látin trufla samstarf Íslendinga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fjármögnun lána frá nágrannalöndum okkar.

Hann vonast til að fimmta, og næstsíðasta, endurskoðun samstarfsáætlunar okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verði sem fyrst á dagskrá og fari í gegn.

„Við náum að ráða við allar okkar skuldbindingar. Við höfum bæði greiðslugetu og greiðsluvilja," segir Steíngrímur. Hann leggur áherslu á hversu vel tókst til að miðla upplýsingum til annarra landa eftir þessar Icesave-kosningar um að Íslendingar ætli að standa við skuldbindingar sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×