Innlent

Bensínið hækkar enn - lítrinn kominn í 240 krónur

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Olíufélögin hækkuðu verð á bensíni enn einu sinni í morgun og er lítrinn kominn í tæpar tvö hundruð og fjörutíu krónur.

Hæst er verðið hjá Skeljungi eða 239,8 krónur lítrinn. Þá er dísel lítrinn kominn yfir 242 krónur hjá stóru olíufélögunum þremur. Vart þarf að taka fram að eldsneytisverð hefur aldrei verið eins hátt hér á landi. Þess má þó geta að lægsta verðið á bensíni er nú hjá Orkunni eða rétt rúmar 235 krónur lítrinn.

Tíðar bensínhækkanir undanfarnar vikur má rekja til heimsmarkaðsverðs á olíu sem náði hæstu hæðum á tveggja ára tímabili á mörkuðum í New York í síðustu viku. Hins vegar lækkaði verð á tunnu lítillega í gær og endaði undir 110 dollurum tunnan. Þá er þó umtalsvert hærra en verðið hefur verið síðastliðið ár. Hátt olíuverð orsakast aðallega af óeirðunum í Líbíu sem staðið hafa nú í um 6 vikur og hafa neikvæð áhrif á framboð olíu. Alþjóða orkumálastofnunin segir í nýjustu mánaðarskýrslu sinni að hátt olíuverð sé farið að hafa áhrif á eftirspurn eftir olíu og haldist verðið yfir 100 dollurum tunnan gæti það hægt á efnahagsbata í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×