Innlent

Getur ekki gengið að ráðherrastólnum vísum eftir fæðingarorlof

Helga Arnardóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra getur ekki gengið að ráðherrastólnum sem vísum eftir fæðingarorlof, samkvæmt lögfræðiáliti sem hún lét gera fyrir sig.

Árni Þór Sigurðsson var kjörinn þingflokksformaður VG um helgina en Guðfríður Lilja hefur verið í fæðingarorlofi síðustu mánuði. Það kom henni því í opna skjöldu að hún skyldi ekki getað gengið í starf sitt sem þingflokksformaður að fæðingarorlofi loknu.

„Þetta er niðurstaða meirihluta þingflokksins, að við sem höfum verið í stjórn það sem af er þessu þingi, kláruðum það og síðan fer fram kosning aftur þegar þessu þingi lýkur," segir Árni Þór.

Jafnréttistofa telur jafnréttislög ekki hafa verið brotin en málið sé hins vegar á gráu svæði. Ögmundur Jónasson Innanríkisráðherra segir sorglegt að hún hafi misst embættið.

„Almenna reglan er sú að þegar kona eða karl eftir atvikum fer í fæðingarorlof, þá gengur hann að sínu starfi eða embætti eftir að fæðingarorlofi lýkur. Þessi grundvallarregla var ekki virt í okkar þingflokki og mér þykir það mjög miður," segir Ögmundur og í sama streng tekur Ásmundur Einar Daðason þingmaður VG.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra sem þó kaus Árna Þór í embætti nýs þingflokksformanns lét gera fyrir sig lögfræðiálit um hvort hún gæti gengið að ráðherrastólnum sem vísum eftir fæðingarorlof. Samkvæmt álitinu er það í anda jafnréttislaganna að hún haldi ráðherraembætti eftir fæðingarorlof en hún hefur þó ekki ótvíræðan rétt til þess.

„Ég veit að lagalega séð get ég það ekki, og veit í sjálfu sér ekki meira um það. Um okkur gilda aðrar reglur en þá sem eru með hefðbundinn ráðningarsamning við sinn vinnuveitanda, erfitt að ganga að sínu starfi vísu ef flokksfélagar taka aðrar ákvarðanir," segir Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×