Innlent

Kínverjar hyggjast sigla til Íslands um Norðurpólinn

Snjódrekinn, stærsti ísbrjótur heims sem ekki er knúinn kjarnorku
Snjódrekinn, stærsti ísbrjótur heims sem ekki er knúinn kjarnorku
Kínversk stjórnvöld áforma að senda ísbrjót yfir Norðurheimskautið til Íslands í sumar og yrði þetta í fyrsta sinn sem skip kæmi þessa leið frá Kyrrahafinu til Íslands. Jafnframt gæti leiðangurinn orðið heimssögulegur viðburður.

Hugmyndin að leiðangrinum var rædd í Kínaheimsókn forseta Íslands síðastliðið haust. Ólafur Ragnar Grímsson fundaði þá með fulltrúum kínversku heimskautastofnunarinnar í Shanghai og bauð þeim að næsti norðurslóðaleiðangur Kínverja kæmi við á Íslandi. Forstjóri Heimskautastofnunar Noregs tjáði norrænum fréttamönnum á fundi í Tromsö fyrir helgi að Kínverjar ætli að þiggja boð forseta Íslands og senda helsta stolt sitt, ísbrjótinn Snjódrekann, í sögulegan leiðangur frá Kína til Íslands í sumar.

Snjódrekinn er stærsti ísbrjótur heims sem ekki er knúinn kjarnorku. Leið skipsins frá Kína mun væntanlega liggja um Japanshaf og Kyrrahaf, um Beringssund og síðan svokallaða norðausturleið meðfram norðurströnd Rússlands, norður fyrir Noreg og þaðan til Íslands. Tekið skal fram að hvorki utanríkisráðuneytið íslenska né forsetaembættið hafa fengið staðfestingu frá Kínverjum um leiðangur Snjódrekans til Íslands í sumar.

Með því að láta skipið í bakaleiðinni sigla vestur fyrir Grænland svokallaða norðvesturleið meðfram norðurströnd Kanada, norður fyrir Alaska og þaðan inn á Kyrrahaf gæti leiðangur kínverska ísbrjótsins um Norðurpólinn milli Kína og Íslands orðið heimssögulegur viðburður. Þótt tveir Norðmenn hafi í fyrra á seglskútu orðið fyrstir manna til að sigla báðar norðurleiðirnar á sama ári fóru þeir ekki inn á Kyrrahafið í sínum leiðangri.

Kínverski Snjódrekinn gæti þannig í Íslandsleiðangrinum í sumar orðið fyrsta skip sögunnar til að sigla á sama sumri milli stóru heimshafanna beggja, Atlantshafs og Kyrrhafs, með því að fara báðar Norðurleiðirnar um heimsskautið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×