Erlent

Flugræningi yfirbugaður af farþegum og áhöfn

Áhöfn og farþegar brugðust snögglega við og yfirbuguðu flugræningjann.
Áhöfn og farþegar brugðust snögglega við og yfirbuguðu flugræningjann. Mynd/ap
Flugræningi var snögglega yfirbugaður af áhöfn og farþegum í flugi Alitalia frá París til Rómar á níunda tímanum í gær. Maðurinn ógnaði flugliða með smáum hníf og krafðist þess að flugvélinni yrði beint til Tripoli, höfuðborgar Líbíu. Áhöfn og farþegar brugðust hratt við og yfirbuguðu manninn sem svo var sprautaður með deyfilyfi af lækni sem var farþegi í vélinni.

Atvikið átti sér stað framarlega í vélinni og voru viðbrögð áhafnar og farþega það snögg að þeir farþegar sem aftast sátu urðu ekki varir við neitt.

Maðurinn er 48 ára gamall og starfaði sem ráðgjafi sendinefndar Kasakstan hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna í París. Hann er með hreina sakarskrá og án nokkurra tenginga við hryðjuverkahópa. Ástæður aðgerða mannsins eru enn óljósar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×