Erlent

Dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og brottvísað fyrir á­rásina á Mette

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Maðurinn réðst á forsætisráðherrann í ölæði í miðborg Kaupmannahafnar í júní.
Maðurinn réðst á forsætisráðherrann í ölæði í miðborg Kaupmannahafnar í júní. Vísir/EPA

Pólskur maður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í héraðsdómi Kaupmannahafnar til fjögurra mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa veist að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í júní síðastliðinn

Maðurinn réðst á ráðherrann á Kolatorginu í miðborg Kaupmannahafnar þann sjöunda júní síðastliðinn. Hann kýldi hana fast í hægri upphandlegg með þeim afleiðingum að hún missti jafnvægið og féll. Hún fékk vægan hálshnykk og var flutt á Rigshospitalet til skoðunar.

Maðurinn var undir miklum áhrifum áfengis og angaði að brennivíni þegar lögreglan handtók hann, að hennar sögn. Hann hafi einnig verið svo sljór að þurfti að aðstoða hann við að komast inn í lögreglubílinn. Fyrir dómi kvaðst hann ekki muna mikið eftir árásinni. Hann hefur áður hlotið dóma fyrir innbrot og líkamsárásir.

Ríkisútvarp Danmerkur greinir frá því að honum verði einnig vísað brott frá Danmörku í minnst sex ár. Honum verður einnig gert að greiða málskostnað ásamt miskabótum sem nema 25 þúsund krónum íslenskum. Hinn dæmdi kveðst ekki munu áfrýja dómnum.

Maðurinn var einnig dæmdur í nokkrum liðum fyrir blygðunarsemisbrot og að hafa stolið tómum flöskum úr verslunum.


Tengdar fréttir

Ákærður fyrir árásina á Mette Frederiksen

Maðurinn sem réðst á Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á Kolatorgi Kaupmannahafnar í síðasta mánuði hefur verið ákærður fyrir árás á embættismann.

Óttast að árásarmaðurinn flýi land

Dómari í héraðsdómi Kaupmannahöfn hefur ákveðið að framlengja gæsluvarðhald yfir manninum sem ákærður er fyrir að hafa veist að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, þann sjöunda júní síðastliðinn um tvær vikur. Dómari segist óttast að hann muni flýja land.

Árásarmaðurinn segist ekkert hafa á móti Mette

Maðurinn sem sló Mette Frederiksen í Kaupmannahöfn í gærkvöldi segist ekkert hafa á móti henni og segir að hún sé „mjög góður forsætisráðherra.“ Það hafi jafnramt komið honum „skemmtilega á óvart“ að sjá hana á götunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×