Erlent

Níu starfs­menn UNRWA reknir vegna aðildar að á­rásunum 7. októ­ber

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólk kemur saman við tímabundinn minnisvarða um þá 350 sem voru myrtir á tónlistarhátíðinni Supernova 7. október síðastliðinn.
Fólk kemur saman við tímabundinn minnisvarða um þá 350 sem voru myrtir á tónlistarhátíðinni Supernova 7. október síðastliðinn. Getty/Ilia Yefimovich

Níu starfsmenn Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) kunna að hafa tekið þátt eða átt aðild að árásum Hamas á byggðir í Ísrael 7. október síðastliðinn.

Þetta er niðurstaða rannsóknar Sameinuðu þjóðanna.

Starfsmönnunum hefur öllum verið sagt upp störfum, að sögn talsmannsins Farhan Haq.

Málið var tekið til rannsóknar eftir að yfirvöld í Ísrael sögðu að minnsta kosti tólf starfsmenn UNRWA hafa átt aðild að árásunum. Ísraelsmenn hafa síðan fullyrt að um 450 starfsmenn stofnunarinnar tilheyri hryðjuverkahópum.

Rannsókn Sameinuðu þjóðanna náði til nítján starfsmanna. Fyrir utan starfsmennina níu fundust engar sannanir fyrir því að einn hefði tekið þátt og ónógar sannanir í málum níu annarra.

Talsmaður Ísraelshers segir niðurstöður rannsóknarinnar sýna að UNRWA hafi náð „nýjum lægðum“.

Nokkur ríki, þeirra á meðal Ísland, frystu tímabundið fjárframlög til UNRWA í kjölfar ásakanna Ísraelsmanna en öll hafa hafið aðstoð á ný, nema Bandaríkin.

UNRWA rekur umfangsmikla starfsemi á Gasa og telja starfsmenn samtakanna þar um 13.000.

Um það bil 1.200 létust í árásum Hamas á Ísrael en um 38.400 eru sagðir hafa fallið í árásum Ísrael á Gasa. Tugir gísla sem teknir voru 7. október eru enn í haldi Hamas á Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×