Erlent

Naktir í ræktinni: Fjórir í fyrsta tímanum

Eigandi stöðvarinnar er enginn strípalingur en fannst þetta góð viðskiptahugmynd
Eigandi stöðvarinnar er enginn strípalingur en fannst þetta góð viðskiptahugmynd
Eigendandi líkamsræktarstöðvar í Baskalandi, á Norður-Spáni, hefur farið heldur óhefðbundna leið til að reyna að ná til nýrra viðskiptavina í kreppunni. Á líkamsræktarstöðinni Easy Gym í Arrigorriaga er nú hægt að fara nakinn í ræktina.

„Ég er sjálf ekki strípalingur, en mér finnst þetta samt ekkert tiltökumál. Þetta frumkvæði snýst bara um að græða peninga," segir Merche Laesca, eigandi Easy Gym í samtali við BBC.

Laesca vann heimavinnuna áður en hún ákvað að fara þessa leið, en hún komst að því að í nágrenninu eru tvær sundlaugar þar sem fólki býðst mánaðarlega að fara nakið í laugina, og njóta þessir sérstöku nektartímar mikilla vinsælda.

Þá eru minnst tólf strendur á svæði Baska þar sem fólk hittist nakið, fer í sólbað og spilar á spil. Ofan á allt saman er síðan árlegt fjöldahlaup um ströndina í borginni Sopelana. Laesca var því handviss um að hún hefði þarna fundið hið fullkomna viðskiptatækifæri.



Þarna situr fólkið á handklæðum, sem grípa svitann og koma í veg fyrir að fólk renni
Hún varð því fyrir nokkrum vonbrigðum þegar aðeins fjórir mættu í fyrsta tímann. „Þeim sem mættu fannst þetta samt alveg frábært," segir hún.

Frá og með næsta mánuði verður Easy Gym opið seinni hluta laugardags og allan sunnudaginn sérstaklega fyrir þá sem vilja æfa naktir.

Eigandi hefðbundinnar líkamsræktarstöðvar segir í samtali við BBC, af þessu tilefni, að honum finnist fátt óhreinlegra en nakið fólk í tækjasalnum.

„Þegar þú ert að æfa fer svitinn í fötin þín. Hvert fer svitinn ef þú ert nakinn? Á tækin? Á gólfið? Á fólkið sem er að æfa næst þér?," spyr hann.

Laseca hefur þó séð fyrir þessu og býður fólki handklæði til að setja á tækin. Þannig er líka komið í veg fyrir að fólk renni til.

Tíminn einn mun leiða í ljós hvort viðskiptin glæðist hjá Easy Gym. Ljóst er að framtakið hefur vakið mikla athygli og þegar hefur jógakennari haft samband við Laseca og boðist til að kenna hinum nöktu jóga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×