Viðskipti innlent

Segir Wessman skulda persónulega yfir 20 milljarða króna

Valur Grettisson skrifar
Björgólfur Thor og Róbert Wessman deila nú fyrir dómstólum.
Björgólfur Thor og Róbert Wessman deila nú fyrir dómstólum. Myndin er samsett.
„Róbert Wessman hefur ákveðið að áfrýja frávísun Héraðsdóms og auðvitað er það sjálfsagður réttur hans, vilji hann halda málinu til streitu," segir Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Björgólfs Thors Björgólfssonar, um ákvörðun Róberts Wessman að áfrýja frávísunarúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í gær.

Lögfræðingur Róberts hefur áhyggjur af því að dráttur málsins verði til þess að Novator fari í þrot áður en málinu ljúki. Þessu hafnar Ragnhildur og bætir við að Róbert skuldi persónulega yfir 20 milljarða króna.

Róbert stefndi félögunum Novator Pharma Holding, sem er skrásett á Tortóla, og Novator Pharma í ágúst á síðasta ári. Ástæðan var sú að hann taldi sig eiga inni 30 milljónir evra, eða um 4,6 milljarða króna, vegna árangurstengdrar þóknunar. En Róbert var forstjóri Actavis, áður Delta, í tæp tíu ár.

Héraðsdómur féllst á frávísunarkröfu verjanda félaganna þar sem Róbert hafði ekki ársreikning Actavis undir höndum þegar hann krafðist upphæðarinnar, sem er, eins og fyrr segir, árangurstengd. Lögfræðingur Róberts sagði í viðtali við Vísi í gær að þarna væri ekki um efnislega niðurstöðu að ræða og því yrði málinu áfrýjað. Staðfesti hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms verður málið höfðað upp á nýtt að sögn Árna Harðarsonar, lögmanns Róberts.

Aftur á móti hafði Árni áhyggjur af drætti málsins. Hann sagði á Vísi í gær:

„Það er vont að missa þennan tíma þar sem við óttumst að Novator, félag Björgólfs sem stefnt var í málinu, fari í þrot áður en við fáum efnisdóm þar sem búið er að færa eignarhaldið á Actavis í annað félag í hans eigu."

Þessu sjónarmiði er Ragnhildur ósammála: „Það er í meira lagi undarlegt af lögmanni Róberts að láta eins og tíminn vinni gegn honum vegna hættu á að Novator fari í þrot. Novator hefur samið við kröfuhafa sína og starfar í fullri sátt við þá," segir hún og bætir við:

„Mér sýnist líklegra að sá sem skuldar persónulega yfir 20 milljarða króna, þ.e. Róbert Wessman, fari fremur í þrot en félag sem hefur samið um uppgjör við lánardrottna sína. Lögmaður Róberts snýr þessu á haus."


Tengdar fréttir

Björgólfur hafði betur: Máli Wessman vísað frá dómi

Dómari Héraðsdóms Reykjavíkur féllst á frávísunarkröfu Novator í dag í skuldamáli sem athafnamaðurinn Róbert Wessmann höfðaði gegn fyrirtækinu, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Wessman mun áfrýja - óttast að Novator fari í þrot á meðan

„ Þetta er náttúrulega engin efnisdómur um kröfuna og verður úrskurðinum áfrýjað til Hæstaréttar,“ segir lögmaður Róberts Wessman, Árni Harðarson, um frávísunarúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í dag. Róbert höfðaði mál gegn félögum Björgólfs Thors Björgólfssonar, Novator Pharma Holding, sem er skrásett á Tortóla, og Novator Pharma í ágúst á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×