Handbolti

Einar: Ekki verkefni sem maður þarf að vera hræddur við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar með aðstoðarmönnum sínum, Magnúsi Jónssyni og Guðríði Guðjónsdóttur.
Einar með aðstoðarmönnum sínum, Magnúsi Jónssyni og Guðríði Guðjónsdóttur. Mynd/Stefán
Einar Jónsson, tók í dag að sér þjálfun beggja meistaraflokksliða Fram í handboltanum. Hann hefur þjálfað kvennaliðið í fjögur ár og var aðstoðarþjálfari karlaliðsins í vetur en núna verður hann með bæði liðin á sinni könnu.

„Þetta er stórt verkefni en skemmtilegt. Þetta er búið að vera í umræðunni innan okkar raða í talsverðan tíma og mér fannst þetta vera skemmtileg lausn. Við vorum sammála um það að ég myndi halda áfram með kvennaliðið ásamt því að taka karlaliðið sem er nýtt skref í þessu öllu saman," sagði Einar á blaðamannfundi í dag.

„Karladeildin heillar mjög  því hún var frábær í vetur og þar er skemmtilegur starfvettvangur til að vera á. Það er erfitt að sleppa höndunum af kvennaliðinu þannig að þetta var mjög góð lending," sagði Einar sem hefur gert flotta hluti með kvennaliðið en á enn eftir að vinna Íslandsmeistaratitilinn með liðinu.

„Við erum búin að vera ansi nálægt því að vinna þann stóra undanfarin fjögur ár en engu að síður höfum við unnið tvo bikarmeistaratitla og fleiri minni titla sem er mjög góður árangur. Við erum líka að skila leikmönnum út í atvinnumennsku þannig að eitthvað vorum við að gera rétt. Menn vilja halda áfram á þeirri braut sem hefur verið stigin hér undanfarin ár," sagði Einar.

„Ég er hrikalega ánægður með það fólk sem vinnur með mér, Magnús Jónsson og Guðríði Guðjónsdóttur. það verður mikil ábyrgð sem hvílir á þeim og ég gat ekki fengið betra fólk með mér í þetta en þau," sagði Einar en Magnús verður aðstoðarmaður hans hjá karlaliðinu en Guðríður aðstoðar hann áfram með kvennaliðið.

„Ég þarf að marka ákveðin spor hjá karlaliðinu og sýna hvaða leið ég vil fara. Það er vinna framundan með karlaliðið en ég vil meina að sú vinna hafi hafist fyrir ári síðan. Liðið var þá í fallbaráttu og rétt hélt sér uppi á síðasta leik. Í vetur fór liðið í undanúrslit bæði á Íslandsmóti og í bikar. Það má ekki taka það af liðinu að það náði prýðilegum árangri síðasta vetur og við þurfum bara að halda áfram að byggja ofan á það. Við verðum bara að horfa fram á vegin og vinna úr þeirri stöðu sem við erum í í dag," sagði Einar.

„Ég var aðstoðarþjálfari karlaliðsins í fyrra og hef þjálfað suma af þessum drengjum í yngri flokkum. Ég þekki liðið mjög vel og hvers konar karaktera það skipa og hver geta liðsins er. Þessi hópur er flottur og það er mikil geta í þessu liði. Þetta er ekki verkefni sem maður þarf að vera hræddur að taka við. Það er metnaður í þessum hóp og það er okkar að byggja ofan á þann árangur sem náðist í fyrra. Svo koma einhverjar nýjar áherslur með nýjum mönnum," sagði Einar.

„Þetta mun eitthvað rekast á en miðað við hvernig Íslandsmótið spilast ættu ekki leikir að rekast á. Ef við getum farið að hugsa svo langt að bæði lið verði í úrslitakeppninni þá er þetta ansi strangt. Ég myndi sem dæmi ekki gráta yfir því vandamáli að fara með bæði liðin í Höllina," sagði Einar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×