Innlent

Flest efnahagsbrotamál í ákærumeðferð á árinu 2013

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Búast má við að stærstur hluti mála sem eru á borði Sérstaks saksóknara verði í ákærumeðferð á árinu 2013, segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Ákærur verði þó gefnar út jafnóðum og rannsókn mála ljúki.

Á sérstakri málstofu um meðferð stórra efnahagsbrotamála á lagadeginum svokallaða sem haldinn er árlega á vegum Lögfræðingafélagssins, Lögmannafélagsins og Dómarafélags Íslands sköpuðust umræður um hvenær von væri á ákærum í stórum efnahagsbrotamálu hjá sérstökum saksóknara en eins og fréttastofan hefur greint frá kann óútskýrður dráttur á rannsóknum að leiða til frestunar eða niðurfellingar refsingar, samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

Stöð 2 hefur heimildir fyrir því að orð sem látin voru falla á fundinum hafi valdið áhyggjum meðal lögmanna því þar hafi komið fram að meginþungi dómsmeðferðar í sakamálum sem væru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara yrði ekki fyrr en á árinu 2013.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði við fréttastofu í dag að efnislega hefði komið fram á málstofunni að meginþungi rannsókna verði á næstu tveimur árum en þegar komið verði fram á árslok 2012 og 2013 verði áherslurnar komnar frekar inn í rekstur mála fyrir dómi. Ólafur Þór sagði að nú um stundir væri allt embættið undirlagt af rannsóknum. Ekki væri gert ráð fyrir því að það yrði alltaf þannig því álagið flyttist til á síðari hluta tímabilsins og eftir atvikum kæmust mál í ákærumeðferð jafnóðum. Ólafur Þór sagði að mikil áhersla væri lögð á hraða meðferð mála eins og kostur væri.

Hann sagði rangt að halda því fram að ekki yrði ákært í stóru málunum fyrr en á árinu 2012 og 2013 en enn sem komið er hefur embætti hans gefið út ákærur í tveimur málum. Miðað við núverandi áætlun er gert ráð fyrir að embætti hans ljúki störfum á árinu 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×