Innlent

Á bóla­kafi í Hólms­á

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Lítið sást í bílinn, af gerðinni Suzuki Jimny.
Lítið sást í bílinn, af gerðinni Suzuki Jimny. landsbjörg

Björgunarsveitir voru fyrr í dag kallaðar út til aðstoðar ferðamanni sem hafði fest bíl sinn í Hólmsá. 

Greint er frá þessu í tilkynningu. Nánar tiltekið voru það björgunarsveitirnar Lífgjöf í Álftaveri og Stjarnan í Skaftártungum voru kallaðar út. Tilkynningin barst frá ferðalang á Fjallabaksleið syðri.

Staðan í Hólmsá fyrr í dag. landsbjörg

„Hann sá yfir vatnselginn ferðamann á Jimny í vandræðum við hinn bakkann. Tilkynnandi treysti sér ekki yfir. Ökumaður Jimny bílsins komst út úr honum og upp á bakka.“

Lífgjöf og Stjarnan hafi farið á vettvang austan og vestan árinnar, þannig að ef ekki væri fært vað á henni væri aðstoð beggja vegna árinnar. Pálmar Atli Jóhannesson, formaður Stjörnunnar, segist sjaldan hafa séð jafn mikið vatn í Hólmsá og í dag.

Björgunarsveitarmaður segist ekki hafa séð jafnmikið í ánni.landsbjörg

„Ökumanninum var komið í hlýjan björgunarsveitarbíl en hann var kaldur og hrakinn þegar björgun barst. Bílinn þurfti hins vegar að skilja eftir í ánni. Hann virtist hafa strandað á grjóti eða einhverju og hreyfðist ekki, en björgunarsveitarfólk fann ekki botn milli bíls og bakka í viðleitni sinni við að koma honum upp úr ánni.

Ferðalangurinn hafði náð einhverjum farangri sínum upp á bakkann og þáði far með björgunarsveitarbíl til byggða, hvar hann átti bókaða gistingu í kvöld í nágrenni Kirkjubæjarklausturs.“

Björgunarsveitarmenn frá Lífgjöf.landsbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×