Innlent

Gekk ber­serks­gang og olli tjóni á þremur bif­reiðum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæði sendir daglegar tilkynningar um lögreglumál dagsins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæði sendir daglegar tilkynningar um lögreglumál dagsins. vísir/vilhelm

Maður hefur verið handtekinn grunaður um að hafa valdið tjóni á þremur bifreiðum fyrir utan slysadeild í Kópavogi. Maðurinn hafði fram að því gengið berserskgang að sögn lögreglu.

Þetta er á meðal þeirra mála sem lögreglan á höfuðborgarsvæði greinir frá í tilkynningu. 

Þá segir frá manni sem braust inn í Tækniskólann. Lögregla hafi fengið tilkynningu um innbrotið en sá grunaði var þegar í haldi lögreglu vegna annarra mála og hluti þýfsins því í höndum lögreglu. 

Auk þess var maður handtekinn á lokuðu vinnusvæði þar sem hann hafði fest bíl sinn. Í bílnum fannst þýfi sem maðurinn er grunaður um að hafa haft af svæðinu og „lítið var um svör“ þegar lögreglu bar að garði. Sá er „vel þekktur“ hjá lögreglu og var handtekinn á staðnum.

Loks var tilkynnt um menn sem höfðu brotist inn í íbúðarhúsnæði og „rótað og gramsað í öllu“ áður en húsráðandi mætti heim úr vinnu. Mennirnir voru handteknir á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×