Innlent

Ekki forsendur fyrir nýjum flokki með Evrópusinnuðum sjálfstæðismönnum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Þorsteinn Pálsson segir ekki forsendur fyrir að breikka grunn Samfylkingarinnar í nýjum flokki með Evrópusinnuðum sjálfstæðis- og framsóknarmönnum, eins og Jóhanna Sigurðardóttir bauð upp á í ræðu sinni á flokksstjórnarfundinum í dag. Jóhanna hafi fært Samfylkinguna of langt til vinstri til að svo megi verða.

Forsætisráðherra viðraði þann möguleika á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar að ESB-sinnar í flokkum sem hefðu ekki aðild á sinni stefnuskrá sameinuðust Samfylkingunni jafnvel undir nýju nafni. „Hversu lengi ætla Evrópusinnar að starfa í flokkum sem berjast leynt og ljóst gegn aðildarviðræðum? Hversu lengi ætla þeir sem viðurkenna að íslenska krónan býður atvinnulífi og heimilum landsins ekki uppá annað en viðvarandi höft og takmarkanir að starfa í flokkum sem skella skollaeyrum við þessu mikilvæga hagsmunamáli ?" spurði forsætisráðherra í ræðu sinni í dag, en hún nefndi sérstaklega Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn í þessu samhengi.

„Breytt skipulag, nýtt nafn, ný forysta eða annað á ekki að standa í vegi fyrir því að þessi mikilvægu málefni fái kröftugan framgang og jafnaðarmenn í öllum flokkum geti sameinast á öflugum flokksvettvangi," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir mjög ósennilegt að Evrópusinnaðir sjálfstæðismenn geti unnið með Samfylkingunni í nýju stjórnmálaafli. „Forsætisráðherra er að færa Samfylkinguna lengra til vinstri. Það sem ríkisstjórnin er að gera í efnahagsmálum bendir til að ríkisstjórnin ætli að fjarlægjast þau markmið sem ríkisstjórnin þarf að uppfylla eigi landið að ganga í Evrópusambandið. Ég á því frekar von á því að Evrópusinnar í Samfylkingunni fari úr henni og leiti annað en að eitthvað af þessu tagi gerist," segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×