Innlent

Fékk að leiða Pedro Rodríguez inn á Wembley

Steinar Óli á Wembley
Steinar Óli á Wembley
„Skemmtilegast af öllu var að fá að ganga út á grasið," segir Steinar Óli Sigfússon sjö ára gamall piltur sem fékk að leiða Pedro Rodríguez leikmann Barcelona út á völlinn í úrslitaviðureign Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gær.

Steinar Óli er í 1. bekk í Varmahlíðaskóla og var hlutskarpastur í keppni sem Kreditkort efndi nýverið til og var því í hópi evrópskra barna sem fengu að fylgja leikmönnum inn á Wembley í gær. Um 80 þúsund áhorfendur fönguðu þegar leikmennirnir gengu inn á völlinn. Manchester United og Barcelona öttu kappi í gær og skoraði Pedro Rodríguez fyrsta mark Barcelona í leiknum en leikurinn endaði með 3-1 sigri.

Faðir Steinars Óla, Sigfús Ingi Sigfússon, fór á úrslitaleikinn með Steinari Óla og voru þeir feðgar sammála um að reynslan öll hefði verið fullkomin, fyrir utan tap Manchester manna.  „Það fyrsta sem hann sagði við mig eftir að hafa fylgt Rodríguez út á völl var „Ég snerti Rooney!" en leikmennirnir gáfu öllum krökkunum fimmu," sagði Sigfús Ingi sem var afar ánægður með ferðina.

„Þetta er ein stærsta viðureign ársins og erum við afar glöð fyrir hönd Steinars Óla," segir Sigfríð Eik Arnardóttir, forstöðumaður Þjónustu- og markaðssviðs hjá Kreditkorti. „Viðskiptavinum okkar með MasterCard kort gafst færi á að skrá börn til leiks og við völdum síðan eitt barn til að fara út ásamt foreldri eða tilsjónarmanni, en um 1.000 börn voru skráð í keppnina. Þetta er ógleymanleg stund fyrir ungt knattspyrnufólk og því mjög spennandi að geta boðið viðskiptavinum okkar að taka þátt í svona leik," segir Sigfríð.

Kreditkort og MasterCard, sem er aðalstyrktaraðili UEFA Champions League, hafa tvisvar áður boðið krökkum og fylgdarfólki þeirra á knattspyrnuleiki erlendis, en aldrei á sjálfan úrslitaleik Meistarakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×