Innlent

Nóg að þjóðin hafi þurft að greiða fyrir síðasta gleðskap þessa fólks

Frá fundinum í dag sem haldinn var í FG.
Frá fundinum í dag sem haldinn var í FG. Mynd/Sigurjón
„Þó enn sé víða við erfiðleika að glíma og enn sé óvissa varðandi ýmis mál hefur ekki verið bjartara yfir íslensku efnahagslífi um langa hríð," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar á flokkstjórnarfundi flokksins í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ í dag.

Jóhanna sagði að samanburður á stöðuefnahagsmála núna og þegar ríkisstjórnin tók við sé eins og að bera saman svart og hvítt. „Þá horfðum við framá djúpa kreppu og rýrnandi lífskjör. Hagvaxtarbólan var sprunginn, bankakerfið hrunið, gengið fallið um nærri 50% og fordæmalaust samdráttarskeið í þjóðarframleiðslu og lífskjörum blasti við þjóðinni. Þjóðfélagið logaði í ílldeilum og eldar loguðu á torgum," sagði Jóhanna.

„Nú, rúmum tveimur árum síðar - þremur eldgosum, þremur Icesave samningum og fimm almennum kosningum síðar, er hagkerfið byrjað að vaxa á ný og við okkur blasir hagvaxtarskeið, með frið á vinnumarkaði og raunverulegri lífskjarasókn með minnkandi atvinnuleysi og auknum kaupmætti launafólks."

Hún sagði að verðbólgan hafi lækkað verulega, úr 18, prósentum í 3,4 prósent „og þrátt fyrir verðbólguskot sl. mánuði sem væntanlega mun ganga til baka, hefur hún ekki verið lægri síðan árið 2005. Vextir hafa lækkað úr 18% í 4,25% og hafa aldrei verið lægri. Skuldatryggingarálag hefur lækkað úr ríflega 1000 stigum í ríflega 200 stig - og ekki verið lægra frá hruni."

„Ofurlaunaliðið, fjárglæframennirnir og stóreignaelítan fær ekki að soga til sín hagvöxtinn sem framundan er ef við fáum að ráða. Það er nóg að þjóðin hafi þurft að greiða fyrir síðasta gleðskap þessa fólks. Sú svallveisla var haldinn undir lúðrablæstri frjálhyggjutrúboðs Sjálfstæðisflokksins. Lífskjarasóknin sem framundan er verður hinsvegar á forsendum jafnaðarstefnunar," sagði Jóhanna meðal annars í ræðu sinni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×