Innlent

Blindrafélagið kvartar til umboðsmanns Alþingis

Úr Kópavogi
Úr Kópavogi Mynd; Stefán
Blindrafélagið gagnrýnir harðlega úrskurð úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála um ferðaþjónustu við lögblinda í Kópavogsbæ, en samkvæmt honum samræmist sú þjónusta sem boðið er upp á lögum um málefni fatlaðra.

Blindrafélagið telur þessa niðurstöðu ranga og óviðunandi með hliðsjón af mannréttindum fatlaðra.

Þá telur félagið það ótækt að mál er varða réttindi fatlaðra fái aðra og óvandaðri stjórnsýslumeðferð en lög kveða á um.

Félagið vinnur því að því að leggja fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna málsins.

„Í umfjöllun um úrskurð úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, frá 13 maí s.l.  heldur Kópavogsbær því fram að úrskurðurinn feli í sér að Kópavogsbær uppfylli lagaskyldur sínar við blinda íbúa bæjarfélagsins þegar kemur að ferðaþjónustu . Þetta er algerlega röng ályktun. Úrskurður nefndarinnar fjallar eingöngu um stjórnsýslukæru vegna eins einstaklings og er ekki allsherjar heilbrigðisvottorð fyrir ferðaþjónustu við blinda Kópavogsbúa,“ segir í tilkynningu frá Blindrafélaginu.

Blindrafélagið er reyndar þeirrar skoðunar að úrskurðurinn sé rangur og mun senda kvörtun til Umboðsmanns Alþingis til að fá úr því skorið hvort að sú stjórnsýsla sem hér um ræðir, bæði að hálfu Kópavogsbæjar og Velferðarráðuneytisins standist markmið þeirra laga sem við eiga og ákvæða í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.  


Tengdar fréttir

Kópavogsbær uppfyllir skyldur gagnvart blindum

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hefur kveðið upp þann úrskurð að sú ferðaþjónusta sem Kópavogsbær veitir lögblindum einstaklingum í bænum samræmist lögum um málefni fatlaðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×