Innlent

Samfylkingarfólk forðast ekki hótel og veitingahús

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar um síðustu helgu fór fram í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ. Hér sést formaður flokksins, Jóhanna Sigurðardóttir, í ræðustól.
Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar um síðustu helgu fór fram í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ. Hér sést formaður flokksins, Jóhanna Sigurðardóttir, í ræðustól. Mynd/Sigurjón
Samfylkingin er ekki á nokkurn hátt að forðast að nýta þjónustu aðila sem tilheyra Samtökum ferðaþjónustunnar. Þess í stað hefur flokkurinn átt töluverð viðskipti við fjölmarga aðila í hótel- og veitingahúsrekstri.

Þetta kemur fram á vef Samfylkingarinnar vegna tilkynningar sem Samtök ferðaþjónustunnar sendu frá sér í gær þar sem samtökin sögðu ríkisstjórnarflokkanna funda í sölum opinberra stofnana þar sem ekki sé greiddur virðisaukaskattur. Tvö dæmi er tiltekin af því að ríkisstjórnarflokkarnir hafi haldið fundi í skólum. Vinstri græn hafi fundað tvívegis í Hagaskóla í fyrra. Um síðustu helgi hafi Samfylkingin síðan haldið flokksþing í Fjölbrautaskóla Garðabæjar. „Það ríkir gríðarleg samkeppni á þessum markaði og fyrir löghlýðin fyrirtæki er erfitt að eiga í samkeppni við opinberar stofnanir sem þurfa ekki að standa skil á virðisaukaskatti," segja Samtök ferðaþjónustunnar.

Samfylkingin segir á vef sínum að gagnrýni Samtaka ferðaþjónustunnar eigi ekki við nokkur rök að styðjast hvað Samfylkinguna varðar. „Þegar fundir eru haldnir á vegum flokksins er yfirleitt fundað í félagsaðstöðu Samfylkingarfélaga en ef slíkt húsnæði er ekki til staðar þá er leitað til aðila í hótel- og veitingarekstri með fundaðstöðu eins og hægt er. Fyrst og fremst leitar Samfylkingin eftir góðu húsnæði sem hentar eðli hvers fundar fyrir sig."

Þá tilgreinir Samfylkingin hvar flokkstjórnarfundir hafa verið haldnir að undanförnu sem og yfir 30 fundir í tengslum við skýrslu umbótanefndar flokksins. „Af ofangreindu er augljóst að Samfylking er ekki á nokkurn hátt að forðast að nýta þjónustu aðila sem tilheyra Samtökum ferðaþjónustunnar heldur hefur flokkurinn einmitt átt mjög góð samskipti og töluverð viðskipti við fjölmarga aðila í hótel- og veitingahúsrekstri á undanförnum mánuðum og árum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×