Innlent

Fjöldi íbúða sem Íbúðalánasjóður leysti til sín þrefaldaðist

Á einu ári þrefaldaðist sá fjöldi íbúða sem Íbúðalánasjóður hefur leyst til sín. Ljóst er að hið opinbera þarf aftur að leggja sjóðnum til umtalsvert nýtt eigið fé.

Í Fjármálastöðugleikanum er fjallað um stöðu Íbúðalánasjóðs, en þar hafa vanskil jafnframt aukist. Fasteignalán í 90 daga vanskilum eru nú tæp tíu prósent heildarútlána sjóðsins. Þá hefur gjaldþrotum og árangurslausum fjárnámum hjá einstaklingum fjölgað verulega. Þau voru samtals 3.400 árið 2009, 4.400 árið 2010 og fyrstu mánuðir ársins 2011 benda til þess að þau gætu orðið 9.000 á þessu ári, en meirihlutinn eru árangurslaus fjárnám.

Það þarf því ekki að koma á óvart að sprenging varð í fjölda íbúða sem sjóðurinn leysti til sín á síðasta ári. Í upphafi árs 2010 átti Íbúðalánasjóður 347 íbúðir, en undir árslok var fjöldi íbúðanna orðinn 1069.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir skýringuna blasa við. „Síðasta ár vorum við ennþá í fríu falli, síðasta ár samdráttarins og annað ár eftir fjármálakreppuna. Það var alveg ljóst að það myndi verða þróun að þessu tagi. Hvort þetta er meira eða minna heldur en búast mátti við fer eftir því hvað fólk bjóst við. Það er ekkert í þessum tölum sem fær okkur til að staldra mikið við."

Í heftinu er jafnframt komið inn á eiginfjárvanda sjóðsins, en þar er sagt ljóst að ríkissjóður þarf aftur að leggja sjóðnum til umtalsvert nýtt eigið fé eða víkjandi lán, eigi markmið sjóðsins um 5% eiginfjárhlutfall að nást fyrir árslok. Sjóðurinn er þó ekki einn um að eiga í eiginfjárvanda, því veðhlutfall tæplega 20% fasteigna voru yfirveðsettar í ársbyrjun, sem merkir að hrein eign í fasteignunum er neikvæð. Fjöldi fasteigna með slíkt neikvætt eigið fé hafði þá vaxið um þrjú prósentustig á hálfu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×