Innlent

Stjórnarliðar óttast málþóf

Stjórnarliðar óttast að sjálfstæðismenn ætli að beita málþófi til að koma í veg fyrir að kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga. Forseti Alþingis ætlar að funda með þingflokksformönnum á morgun vegna málsins.

Umræðum um fyrra kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar var framhaldið á Alþingi í dag. Frumvarpið nær til breytinga sem eiga að taka gildi á næsta fiskveiðiári og því hefur forsætisráðherra lagt mikla áherslu á að það mál verði klárað áður en þingmenn fara í sumarfrí.

Þingfundur stóð í til miðnættis í gær en 14 þingmenn voru enn á mælindaskrá í kvöld allt þingmenn stjórnarandstöðunnar. Sjálfstæðismenn gagnrýndu frumvarpið harkalega á Alþingi í dag.

„Þetta er algjört ráðherraræðisfrumpvarp. Það er það sem þetta frumvarp snýst um," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Frumvarpið snúist ekki um að auka hagkvæmi í sjávarútvegi.

„Það er verið að afgreiða þetta mál ófullbúið frá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum og síðan er ætlunin að hæstvirtur ráðherra fái síðan alræðisvald," sagði Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðunum í dag.

Þeir stjórnarliðar sem fréttastofa ræddi við óttast að sjálfstæðismenn ætli að beita málþófi til að koma í veg fyrir að frumvarpið nái fram að ganga. Forseti Alþingis hefur boðað formenn þingflokkanna til fundar í fyrramálið til að ræða framhald málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×