Innlent

Frumvarpinu einungis ætlað að ná til sms smálána

Álfheiður Ingadóttir
Álfheiður Ingadóttir
Í Fréttablaðinu í dag birtist heilsíðu auglýsing frá Steini Kára Ragnarssyni, verslunarmanni í Rekkjunni, þar sem hann gagnrýnir frumvarp um breytingu á lögum um neytendalán sem nú liggur fyrir Alþingi. Í auglýsingunni segir að samkvæmt frumvarpinu muni allir þeir sem vilji kaupa vörur á raðgreiðslum eða með vörukaupaláni fyrst þurfa að fara í greiðslumat, og spyr Steinn Kári því hvort neytendur horfi fram á það að þurfa að leggja fram launaseðla, veðbókarvottorð og skattaskýrslur til þess að kaupa nýtt hjónarúm. Að lokum krefst Steinn Kári þess að ákvæðið verði fjarlægt úr frumvarpinu.

Eftir að hafa kynnt sér efni auglýsingarinnar bendir Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, á að umræddri grein sé einungis ætlað að ná til smálána á borð við þau sem hægt er að fá með sms sendingum. Það sé yfirlýstur tilgangur frumvarpsins, sem hún segir á að sé enn í vinnslu. Bent hafi verið á þann möguleika að ákvæðið sem um ræðir gæti verið víðtækara og verið sé að skoða það nánar, en hún ítrekar að frumvarpinu sé beint að smálánum. Hún bætir því við að hjónarúmin verði höfð í huga í áframhaldandi vinnu að frumvarpinu, enda sé mikil sátt, samlyndi, ást og friður í viðskiptanefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×