Innlent

Kannabisneysla unglinga hefur minnkað frá 1999

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kannabisneytandi. Mynd/ Getty.
Kannabisneytandi. Mynd/ Getty.
Neysla 15-16 ára íslenskra unglinga á hassi og maríjúana er svipuð og hún var fyrir sextán árum, samkvæmt niðurstöðum evrópsku vímuefnarannsóknarinnar ESPAD 2011. Árið 1995 höfðu 10% unglinga á þessum aldri prófað kannabisefni en 11% árið 2011. Mest mældist neyslan árið 1999, en þá höfðu 15% prófað kannabisefni. Minnst var hún árið 2007, en þá höfðu um 9% prófað kannabisefni. Um er að ræða nemendur sem höfðu prófað kannabisefni einu sinni eða oftar.

Aðgengi 15-16 ára unglinga á hassi og maríjúana mælist nú jafnframt svipað og fyrir sextán árum. Vorið 1995 töldu 41% unglinganna að það væri erfitt eða útilokað fyrir þa að verða sér úti um slík efni ef þau vildu en 11% að það væri mjög auðvelt. Vorið 2011 töldu 42% að það væri erfitt eða útilokað en 12% að það væri mjög auðvelt. Mest mældist aðgengi íslenskra unglinga að kannabisefnum árið 1999 þegar 24% töldu mjög erfitt eða útilokað að verða sér úti um hass eða maríjúana en minnst árið 2007 þegar 44% nemenda í 10. bekk töldu slíkt erfitt eða útilokað.

Viðhorf unglinga til skaðsemi kannabisefna hafa mildast nokkuð. Árið 1995 töldu 42% unglinga á aldrinum 15-16 ára mikla hættu á því að fólk skaðaði sig á því að prófa hass eða maríjúana einu sinni eða tvisvar. Nú eru einungis 37% sem telja hættu á því.

Könnunin var lögð fyrir alla nemendur í 10. bekk grunnskóla á þessari önn sem nú er að líða undir lok. Svarhlutfall var um 80%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×