Innlent

Sumarstarf Árbæjarsafns hefst á morgun

Mynd: Árbæjarsafn
Sumarstarf Árbæjarsafns hefst að venju 1. júní og verður safnið opið gestum og gangandi alla daga í júní, júlí og ágúst frá klukkan 10 til 17.

Á sunnudögum í sumar verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá sem fyrr. Má þar nefna fasta liði eins og handverksdag Heimilisiðnaðarfélagsins, sem verður næsta sunnudag, heyannir, fornbíladaginn, harmonikkuhátíð, búningadag barna, skákmót og haustmarkað safnsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Árbæjarsafni.

Af öðrum viðburðum má nefna Jónsmessugleði Árbæjarsafn og Félags eldri borgara og hina árlegu Jónsmessugöngu um Elliðaárdalinn. Þá verður boðið upp á sérstaka dagskrá sunnudaginn 19. júní, um sögu kvenna í Reykjavík á 19. öld, sem ber yfirskriftina Maddama, kerling, fröken, frú.

Nokkrar nýjar sýningar verða opnaðar á safninu í sumar, má þar til að mynda nefna sýningu á heimagerðum barnaföt og sýning um vagnasmíði í Reykjavík á 20. öld. Í Listmunahorni munu fjórir listamenn sýna verk sín.     

Að venju verður starfsfólk safnsins búið klæðum sem tíðkuðust á síðari hluta 19. aldar. Á sunnudögum verða steiktar lummur í Árbæ og á laugardögum verður teymt undir börnum. Í Dillonshúsi verður heitt á könnunni og í Krambúðinni verður hægt að versla „gamaldags" varning.

Fyrir börnin verður margt að sjá og hin sívinsæla leikfangasýning „Komdu að leika" verður á sínum stað. Það er næsta víst að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Árbæjarsafni í sumar.

Í tilefni þessa hefur heimasíða safnsins verið uppfærð og endurnýjuð og þar má finna frekari upplýsingar um starf og viðburði á vegum Minjasafns Reykjavíkur. Vefslóðin er www.minjasafnreykjavikur.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×