Innlent

Dúxinn í Kvennó með 9,79

Hluti útskriftarhópsins.
Hluti útskriftarhópsins.
Kvennaskólanum í Reykjavík var slitið í 137. sinn við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju síðastliðinn föstudag þegar 145 stúdentar voru útskrifaðir. Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Olga Sigurðardóttir, nemandi á náttúrufræðibraut en hún útskrifaðist með 1. ágætiseinkunn 9,79, sem jafnframt er hæsta stúdentspróf sem tekið hefur verið við skólann, að því er fram kemur í tilkynningu frá skólanum.

Fjórir aðrir nemendur, allir á náttúrufræðibraut, útskrifuðust með 1. ágætiseinkunn:  Hulda Þorsteinsdóttir, Helgi Guðmundur Ásmundsson, Hlynur Helgason og Valdís Valgeirsdóttir.

Verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur í ýmsum greinum. Olga hlaut m.a. verðlaun úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð, stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík, fyrir hæstu meðaleinkunn og besta heildarárangur á stúdentsprófi. Stúdentspennann 2011, verðlaun fyrir bestu stúdentsritgerðina, úr Verðlaunasjóði dr. Guðrúnar P. Helgadóttur, hlaut Áslaug Sif Guðjónsdóttir á félagsfræðabraut fyrir ritgerðina: Bylting í burðarliðnum – Allen Ginsberg og America. Fjölmörg önnur verðlaun voru veitt.

Nokkrir fulltrúar afmælisárganga skólans voru viðstaddir athöfnina. Fyrir hönd 25 ára afmælisárgangsins talaði Tómas Hansson og færði árgangurinn skólanum málverk, „Valmúar í íslensku vori“ eftir Pétur Gaut, að gjöf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×