Innlent

Vilja Ísland úr Nató

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Mynd/Stefán
Þingflokkur Vinstri grænna og þremenningarnir sem sögðu skilið við þingflokkinn fyrir skömmu hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu, Nató. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Í greinargerð með tillögunni segir að í stað þess að slíðra sverðin í þágu friðar við lok kalda stríðsins hafi Nató farið í útrás með gríðarlegri hernaðaruppbyggingu um víða veröld.  

„Ísland gumar að því að vera herlaust og friðsamt land. Á sama tíma leggur Ísland beint eða óbeint blessun sína yfir hernaðaraðgerðir á vegum bandalagsins sem stofnað er til í því skyni að verja grímulausa hagsmuni forusturíkja þess,“ segir í greinargerðinni. Þá segja þingmennirnir að með loftárásum Atlantshafsbandalagsins á Líbíu sé Ísland enn á ný orðið beinn aðili að styrjaldarátökum. „Blóði drifin saga Natós og forusturíkja þess í bæði Írak og Afganistan ætti með réttu að vera fullt tilefni til þess að fólk allra flokka á Alþingi sameinaðist í þeirri kröfu að Ísland segði sig úr bandalaginu.“

Í lok greinargerðarinnar segir: „Það er brýnt að Ísland sýni í verki að það er sjálfu sér samkvæmt, herlaust og andvígt hernaðarofbeldi. Öllum er ljóst að þær ógnir sem helst steðja að Íslandi eru ekki hernaðarlegs eðlis. Þjóð sem vill vera herlaus og friðsöm á að halda sig utan hernaðarbandalaga. Eftir hálfa öld og óforsvaranleg voðaverk er mál að linni. Því ber að segja Ísland úr Nató.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×