Innlent

Forseti þingsins rak þingmann úr ræðustóli

Höskuldur Þórhallsson var skipað að stíga úr ræðustóli.
Höskuldur Þórhallsson var skipað að stíga úr ræðustóli.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var rekinn úr fundarstóli í morgun þegar rætt var um fundarstjórn forseta. Höskuldur ætlaði þá að svara Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra sem áður hafði verið í óundirbúnum fyrirspurnum, en hann sætti sig ekki við þau svör sem hann hafði fengið frá ráðherranum, um framkvæmdir á Bakka.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti þingsins, brást ókvæða við þegar Höskuldur ætlaði að fara að ræða um svör Katrínar og byrjaði að slá bjölluna af krafti.

„Ekki efnisleg umræða hér," sagði Ásta þá og sló aftur í bjölluna svo það glumdi. Höskuldur lét sér þó ekki segjast og hélt ótrauður áfram og sagðist hafa fengið yfir sig fúkyrðaflaum frá iðnaðarráðherranum. Hann komst ekki mikið lengra fyrir bjölluslætti Ástu Ragnheiðar.

„Forseti Alþingis biður þingmann um að víkja úr fundarstól," sagði Ásta og litlu mátti muna að það syði beinlínis upp úr. Ásta bað þingmanninn aftur um að víkja úr ræðustól en Höskuldur snérist þá til varnar og sagðist eingöngu vera að biðja forseta um að beita sér fyrir því að ráðherra svaraði með málefnalegum hætti en ekki með fúkyrðaflaumi.

Brást Ásta Ragnheiður þá við með því að fresta fundi um fimm mínútur.

„Það er ótrúleg skömm að fundarstjórn forseta hérna," sagði Höskuldur þá og vék loks úr fundarstól.

Ekki náðist í Höskuld vegna málsins þegar eftir því var leitað þar sem hann var staddur á þingflokksfundi Framsóknarflokksins. Myndbandið af atvikinu má hinsvegar skoða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×