Innlent

Vill að stjórnlagaráð endurskoði eignarréttarákvæðið

Arnar Jensson. Myndin er úr safni.
Arnar Jensson. Myndin er úr safni.
„Ég kem því þessu erindi á framfæri við Stjórnlagaráð með þeirri beiðni að farið verði yfir eignaréttarákvæðið í ljósi ofangreinds og það tryggt að stjórnarskráin hindri ekki að hægt verði að setja þessi eða sambærileg alþjóðlega viðurkenndu úrræði í lög á Íslandi,“ skrifar Arnar Jensson, tengifulltrúi Íslands hjá Europol, en hann sendi stjórnlagaráði erindi sem einstaklingur en ekki fulltrúi vegna þess að hann vill meina að eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar njóti meiri lagaverndar á Íslandi en í flestum öðrum löndum.

Hann segir í erindi sínu að hann sé að að ljúka við MA-ritgerð í alþjóðasamskiptum við HÍ. Umfjöllunarefni ritgerðarinnar er alþjóðleg þróun, þróun innan ESB og samanburður á úrræðum yfirvalda til að ná til baka ólögmætum ávinningi (e. Assets Recovery eða Proceeds of Crime Recovery) á Írlandi, í Noregi og á Íslandi.

„Ég hef því rannsakað ítarlega alþjóðlega þróun, þróun í Evrópu og stöðuna á Írlandi, í Noregi og á Íslandi,“ skrifar hann en hann var á opnum fundi hjá lagadeild HÍ þann 26. maí 2010 um lagaúrræði, sem hefur verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum - „non-conviction based confiscation“, sem beita má innan einkamálaréttarfars þar sem sönnunarþröskuldur er lægri en innan sakamálaréttarfarsins.

Þetta lagaúrræði hafa m.a. SÞ, ESB og Evrópuráðið, auk Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, mælt með að aðildarlöndin tækju upp til að ná til baka fjármunum og eignum sem aflað hefur verið með ólögmætum hætti og skila þeim til réttra eigenda samkvæmt grein Arnars.

Arnar tekur svo fram  að á sama fundi hafi komið fram það álit Róberts Spanó lagaprófessors, að hann drægi í efa að íslensk lagasetning, sem heimiluðu þetta úrræði, mundu standast eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar, vegna þess að eignaréttur nyti meiri lagaverndar á Íslandi en í flestum öðrum löndum.

Taldi hann líklegt að þrátt fyrir að Alþingi mundi samþykkja slík lög mundi Hæstiréttur komast að þeirri niðurstöðu að þau stæðust ekki eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar vegna sérstöðu þessa ákvæðis þar,

Arnar skrifar svo:

„Að mínu áliti, svo og ýmissa annarra sem ég hef rætt þetta við (bæði Íslendinga og erlendra sérfræðinga) er bráðnauðsynlegt að skoða þetta gaumgæfilega til að stjórnarskráin standi ekki í vegi fyrir að hægt sé að setja í lög á Íslandi alþjóðlega viðurkennd úrræði sem auðveldi yfirvöldum að ná til baka ólögmætum ávinningi af brotastarfsemi. Sé ofangreind skoðun Róberts Spanó rétt, mætti halda því fram með sterkum rökum að stjórnarskráin verndi þá sem ná til sín ávinningi og eignum með ólögmætum hætti og standi jafnframt í vegi fyrir því að yfirvöld geti náð ólögmætum ávinningi til baka og skilað honum til réttra eigenda“.

Og svo spyr Arnar: „Hvers vegna ætti íslenskur eignaréttur að njóta meiri verndar en annars staðar? Hvers vegna ætti ólögmætur ávinningur að njóta verndar stjórnarskrárinnar?“

Í athugasemdakerfinu við grein Arnars má finna viðbrögð stjórnlagaráðsfulltrúanna Illuga Jökulssonar, Lýðs Árnasonar og Vilhjálms Þorsteinssonar, þar sem þeir óska eftir frekari gögnum um málið og óska einnig eftir dæmi.

Fyrir áhugasama má lesa erindi Arnars hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×