Innlent

Allsherjarnefnd styður þyngri refsingar við mansali

Róbert Marshall er formaður allsherjarnefndar
Róbert Marshall er formaður allsherjarnefndar
Allsherjarnefnd leggur til að samþykkt verði frumvarp um breytingar á hegningarlögum um mansal.  Annars vegar er lagt til að refsing fyrir mansal verði hækkuð úr 8 ára fangelsi í 12 ára fangelsi. Hins vegar er mælt með því að mansalsbrot tæmi ekki sök gagnvart öðrum mjög alvarlegum frelsissviptingarbrotum, líkt og nú er, enda varða slík brot þyngri refsingu en ef brotið er gegn mansalsákvæði hegningarlaganna.

Frumvarpið var afgreitt úr allsherjarnefnd í gær.

Í frumvarpinu er ennfremur lögð til sú breyting á hegningarlögum um mansal að heimilt verði að beita gæsluvarðhaldi og einangrun í gæsluvarðhaldi ef önnur skilyrði eru uppfyllt, það er að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, eða telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna. Nefndin telur að þegar litið er til eðlis þeirra brota sem um er að ræða og þeirra hagsmuna sem í húfi eru sé eðlilegt að dómstólar hafi þessi heimild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×