Innlent

Aðeins 4% af áformaðri vegagerð ársins komin í útboð

Vegagerðin hefur frá áramótum aðeins boðið út fjögur smáverk fyrir liðlega tvöhundruð milljónir króna, sem eru aðeins um fjögur prósent af áformuðum framkvæmdum ársins. Upplýsingarnar koma fram í svari Ögmundar Jónassonar, ráðherra vegamála, við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar, sem kallar þetta sleifarlag.

Verkefni á sviði nýframkvæmda, sem boðin hafa verið út í ár, eru aðeins fjögur; undirgöng við Grænás í Reykjanesbæ, vegur vegna brúar yfir Haffjarðará í Hnappadal, uppbygging Vestfjarðavegar um Skálanes og sveitavegar á Skeiðum á Suðurlandi; verkefni fyrir samtals 234 milljónir króna.

"Mér finnst þetta lýsa bæði framtaksleysi og ákveðnu sleifarlagi að það skuli ekki vera búið að bjóða meira út eða gera samninga um en sem svarar 200-300 milljónum króna," segir Einar og bendir á að árið sé að verða hálfnað og komið inn í háframkvæmdatímann.

Tölurnar í ár eru sláandi þegar borið er saman við útboð síðustu tíu ára, liðlega 200 milljónir fyrir árið 2011 sjást varla í samanburði við tölur sem verið hafa á bilinu tíu til fimmtán milljarðar króna á ári og farið upp í nærri þrjátíu milljarða. Það er raunar áformað að bjóða út í ár fyrir sex milljarða króna en fyrirspyrjandinn telur mál ganga furðu hægt. Einar bendir á að einnig sé óvissa varðandi Vaðlaheiðargöng en það breyti því ekki að menn séu að fara óskaplega hægt af stað á þessu ári.

-Ertu að segja að það sé duglaus ráðherra sem nú stýri vegamálunum?

"Ég er bara að segja það að þetta finnst mér lýsa sleifarlagi og hin pólitíska ábyrgð hlýtur auðvitað að vera hjá ríkisstjórninni og ráðherranum sem fer með málaflokkinn. Það er auðvitað ekki hægt að vísa þessu á neina embættismenn,," svarar Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×