Innlent

Tveir fluttir á slysadeild eftir eldsvoða

Tveir voru fluttir á slysadeild Landsspítalans vegna gruns um reykeitrun og tveir stigagangar voru rýmdir eftir að mikill eldur kom upp í íbúð á þriðju hæð í fjölbýlishúsi að Skúlagötu 72 í Reykjavík á öðrum tímanum í nótt. Allt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað á vettvang og stóðu eldtungur og reykjarmökkur út um glugga íbúðarinnar þegar að var komið. Eldurinn komst auk þess upp í risíbúð, en greiðlega gekk að slökkva eldinn.

Rauði krossinn bauð íbúum stigaganganna tveggja skjól í strætisvagni fyrir utan, á meðan slökkviliðið var að reykræsta íbúðir og stigaganga. Einhverjir treystu sér ekki að snúa til síns heima í nótt og fengu gistingu annarsstaðar.

Íbúarnir tveir sluppu svo naumlega út að þeim gafst ekki ráðrúm að kalla á slökkvilið, en það gerðu lögreglumenn sem áttu leið framhjá húsinu þegar eldurinn gaus upp.

Ljóst er að tjónið er töluvert, en eldsupptök eru ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×