Innlent

Síðustu forvöð að komast strax í greiðsluskjól

Ásta S. Helgadóttir er Umboðsmaður skuldara
Ásta S. Helgadóttir er Umboðsmaður skuldara
Tæplega 80 skuldarar sóttu um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara í gær og eru þar með komnir í greiðsluskjól.  Þetta eru fleiri umsóknir á einum degi en bárust alla síðustu viku, þegar umsóknirnar töldust þó heldur margar. Þetta kom fram hjá Svanborgu Sigmarsdóttur, upplýsingafulltrúa Umboðsmanns skuldara, Í bítinu á Bylgjunni í morgun.

Frestur til að komast strax í greiðsluskjól þegar umsókn um greiðsluaðlögun er lögð inn rennur út á miðnætti á morgun þegar 1. júlí rennur upp.  Eftir þann tíma kemst fólk ekki í greiðsluskjól fyrr en umsókn hefur verið samþykkt hjá Umboðsmanni skuldara.

Svanborg sagði Í bítinu að allir þeir sem skulda meira en þeir ráða við eiga rétt á því að sækja um greiðsluaðlögun hjá embættinu.  

Ólíkt framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, sem hvetur fólk til að sækja um 110%-leiðina jafnvel þó þeir viti ekki hvort hún gagnist þeim, þá ræður Svanborg fólki frá því að sækja um greiðsluaðlögun ef ekki er víst að það þurfi á henni að halda. „Það hefur aðeins meiri áhrif að sækja um hjá okkur," segir Svanborg. Umsókn hjá Umboðsmanni skuldara er opinbert gagn um að fólk sé að leita nauðasamninga, henni er þinglýst og getur mögulega haft neikvæð áhrif á greiðslusögu fólks sem er ekki í vanda.

Það hefur aðeins meiri áhrif að sækja um hjá okkur. Ef þú sækir um er þinglýst umsókninni, opinber gögn að þú hafir sótt um greiðsluaðlögun og sért að leita nauðasamninga.

Ef þú þarft ekki á þessu að halda og þú þarft ekki að fara í greiðsluaðlögun þá gæti þetta mögulega verið neikvætt fyrir þína greiðslusögu að þú hafir reynt að leita neyðarasamnings.

Ítarlegt viðtal við Svanborgu Í bítinu má hlusta á með því að smella á tengilinn hér efst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×