Innlent

Birnan sem var skotin í maí: Ung að árum og nýfarin frá mömmu

Hvítabjörn
Hvítabjörn Myndin er úr safni
Hvítabjörninn sem var felldur í Rekavík á Hornströndum 2. maí síðastliðinn var ung birna við það að verða kynþroska. Hún var einungis 95 kíló og 173 sentimetrar að lengd. Birnan var búin að vera hér á landi í einhvern tíma áður en hún var skotin úr þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Birnan var skotin tæpum sex klukkustundum eftir að hún sást á vappi í fjörunni í Hælavík og flutt samdægurs til Reykjavíkur þar sem hún var rannsökuð.

Samkvæmt skýrslu dýrafræðings á tilraunastöðinni á Keldum var birnan ung að árum og talin vera fædd í janúar 2008. Aldursgreiningin byggir á talningu árhringja á tannrótum.

Birnan er talin hafa lotið forsjár móður fram á seinni hluta vetrar 2010 en eftir það hafi hún þurft að finna fótum sínum forráð - ein og óstudd.

Í skýrslunni kemur fram að gróflega sé áætlað að fituforði birnunnar hafi verið um 5 prósent af líkamsþyngd en það telst óeðlilega lítið sé miðað við árstímann þegar hvítabirnir eru hvað feitastir.

Aðalfæða hvítabjarna eru kópar sela-tegund sem kæpa á útmánuðum á hafísnum langt norður af landinu. Útilokað er að þessi óverulegi fituforði hefði nægt birnunni til að tímgast þetta árið. Krufningin leiddi ekkert annað óeðlilegt í ljós.

„Aðalfæða hvítabjarna eru kópar sela-tegunda sem kæpa á útmánuðum á hafísnum langt norður af landinu. Útilokað er að þessi óverulegi fituforði hefði nægt birnunni til að tímgast þetta árið. Krufning leiddi ekkert annað óeðlilegt í ljós.

 

Birnan var ekki smituð af tríkínum en í maga fannst sníkjuþráðormur (Contracaecum sp.) sem oft finnst í maga til dæmis kampsels og hringanóra. Gömlu birnirnir tveir sem tóku land á Skaga í júní 2008 og unga birnan sem felld var ríflega 4ra ára við Ósland í Þistilfirði í janúar 2010 voru ekki með þessi sníkjudýr. Tvö þeirra voru engu að síður smituð af tríkínum, sníkjuþráðormi sem getur borist í menn jafnt sem villt spendýr, húsdýr og gæludýr.

Mikilvægt er að hindra að tríkínur nái fótfestu hér á landi, en Ísland er eitt fárra landa þar sem þessir sníkjuormar, sem reynst geta mönnum lífshættulegir, eru ekki landlægir," segir í skýrslunni.

Þar segir einnig að birnan hafi ekki nærst áður en hún var felld en nokkrar gráleitar vængfjaðrir, væntanlega úr fýl, fundust í maga og nokkrar bringufjaðrir af svartfugli fundust aftast í meltingarveginum.

„Þessi niðurstaða bendir til þess að birnan hafi ekki verið alveg nýkomin í land, heldur verið búin að narta í drasl sem varð á vegi hennar en vængir viðfestir brjóstbeinagrindum löngu dauðra fugla varðveitast um langa hríð á fjörum. Nokkur mosablöð og blað af krækilyngi í maga eru talin hafa slæðst ofan í birnuna þegar þorsta var svalað uppi á landi,“ segir ennfremur í skýrslunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×