Innlent

Taka ekki afstöðu til spilavítis í Perlunni

Geiri á Goldfinger er tengiliður fyrir nokkra Rússa sem vilja fjárfesta hér á landi.
Geiri á Goldfinger er tengiliður fyrir nokkra Rússa sem vilja fjárfesta hér á landi.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segist ekki vita hvort fyrirspurn hafi borist frá rússneskum fjárfestum, sem greint hefur verið frá að hafi sýnt áhuga á að opna spilavíti í Perlunni. Hann segist ennfremur ekki vilja taka afstöðu til þess hvaða starfsemi verður rekin í byggingunni verði hún seld.

Aðspurður hvað honum finnist um þær hugmyndir að spilavíti verði opnað í Perlunni segist Eiríkur lítið vilja segja um það hvernig honum lítist á einstakar hugmyndir um framtíðarstarfsemi í byggingunni. Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitunnar, er á sama máli og bætir því við að það sé annarra að taka afstöðu til þess hvað tekur við í Perlunni verði hún seld.

Orkuveitan hefur að sögn Eiríks gert sér vonir um það verð sem fengist gæti fyrir Perluna, en engar tölur verða gefnar upp þar sem það gæti dregið úr líkum á að sem best verð fáist. Nú liggur fyrir hjá Reykjavíkurborg erindi frá Orkuveitunni þar sem því er velt upp hvort borgin hafi hug á að festa kaup á Perlunni, auk annarra eigna fyrirtækisins, en Eiríkur veit ekki til þess að það hafi verið afgreitt.


Tengdar fréttir

Rússar vilja opna spilavíti í Perlunni

"Þetta eru forríkir menn sem vilja kaupa Perluna og opna þar spilavíti,“ segir Ásgeir Þór Davíðsson, oft kenndur við Goldfinger, sem er tengiliður fyrir nokkra Rússa sem vilja fjárfesta hér á landi. "Ef af þessu yrði myndi þetta þýða miklar tekjur fyrir þjóðina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×