Innlent

Evrópuráðsþingið hvetur til kynjakvóta - Ísland er fyrirmynd

Lilja Mósesdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, tók þátt í umræðum um ályktunina
Lilja Mósesdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, tók þátt í umræðum um ályktunina
Evrópuráðsþingið samþykkti, á fundi sínum í Strassborg í síðustu viku, ályktun þar sem aðildarríki ráðsins eru hvött til að fylgja meðal annars fordæmi Noregs og Íslands og innleiða að lágmarki 40% kynjakvóta í stjórnum og stjórnunarstöðum opinberra stofnana og stærri fyrirtækja.

Í framsögu skýrsluhöfundarins, franska þingmannsins Gisèle Gautier, um málið kom fram að hún hefði upprunalega haft efasemdir um að kynjakvótar væru líklegir til að ná þeim árangri sem að væri stefnt. Hún hefði hins vegar skipt um skoðun í ljósi þess að löggjöf, sem sett var í Frakklandi til að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum, hefði leitt til þess að hlutfall kvenna í öldungadeild franska þingsins hefði fjórfaldast - úr 6% í 24%.

Í umræðum um ályktunartillöguna sagði Lilja Mósesdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, að efnahagskreppan á Íslandi hefði verið ákveðið tækifæri til að auka hlut kvenna í ábyrgðarstöðum og ákvarðanatöku. Samstaða hefði m.a. náðst á þingi um að innleiða í lög 40% kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn á árinu 2013. Hún harmaði hins vegar að vegna niðurskurðar á fjárlögum hefði jafnframt þurft að lækka hámarksupphæð fæðingarorlofsgreiðslna verulega sem dregið hefði úr nýtingu feðra á fæðingarorlofi.

Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sátu fundinn Lilja Mósesdóttir, Mörður Árnason og Birkir Jón Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×