Innlent

Ristilspeglun í staðinn fyrir koníak í afmælisgjöf

Það er betra að fá ristilspeglun í fimmtugsafmælisgjöf en koníaksflösku segir maður sem hefur barist við ristilkrabbamein í tæpan áratug. Minni líkur eru á lækningu ristilkrabba hjá þeim sem fara fyrst í rannsókn þegar einkenni eru komin í ljós.

Skúli Skúlason var 38 ára gamall þegar hann greindist með alvarlegt ristilkrabbamein árið 2003 en á þeim tíma hafði hann fundið fyrir almennri vanlíðan og ákvað að leita til læknis.

„Maður fékk þau svör að þetta byrji sem sepi að öllu jöfnu og þróist yfir í krabbamein á 10-15 árum. Þannig að þetta var búið að vera lengi í mér án þess að ég vissi af því, " segir Skúli. Hann varð ekki var við nein einkenni frá meltingafærum á þessum árum og segir þetta vera klassískt dæmi um það hvernig sjúkdómurinn hagi sér.

„Þegar einkennin koma fram þá er það nánast orðið of seint. Þannig að það er það sem er svo erfitt við þennan sjúkdóm, hann er einkennalaus svo lengi og þú veist ekkert af þessu," segir Skúli.

Tíðni krabbameina í ristli og endaþarmi hefur aukist hér á landi vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar. Á árunum 1955 til 1959 greindust 52 karlmenn með slík mein en 370 á árunum 2005 til 2009. Þróunin er svipuð hjá konum, en tilfellum fjölgaði úr 66 í 310 á fyrrgreindum tímabilum.

Með ristilspeglun er hægt að finna þessar tegundir krabbameina á forstigum, svokallaða sepa, og fjarlægja áður en þeir verða illkynja. Þrátt fyrir að auðvelt sé að komast í speglun hefur enn ekki tekist að fækka tilfellum hér á landi þar sem einstaklingar fara ekki í rannsókn fyrr en þeir hafa fengið einkenni. Skúli hvetur alla til að drífa sig í eina slíka og segir að ónotin af skimun séu ekki afsökun.

„Ef allavega menn bera saman óþægindin við skimun við óþægindin við lyfjameðferð þá þarf ekkert að spyrja mig að því, ég myndi fara í skimun, það er alveg ljóst. Þetta er eitthvað sem þú kærir þig ekki um að lenda í," segir Skúli.

Þá slær Skúli á létta strengi í lokinn. „Það er öflug afmælisgjöf, fimmtugsafmælisgjöf, hjá fjölskyldum að gefa þeim sem á afmæli skimun frekar en koníaksflösku,"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×